Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir það vera alvarlegar og óréttmætar ásakanir að Svíar styðji PKK, aðskilnaðarhreyfingu Kúrda sem Tyrkir skilgreina sem hryðjuverkasamtök. Þetta segir í tísti sem Linde sendi frá sér á Twitter.

Linde segir að bornar séu á borð rangar upplýsingar um að sænskir stjórnmálamenn í lýðræðislegum samtökum séu fulltrúar PKK. „Ofbeldi, hryðjuverk og öfgastefnur eiga sér ekkert pláss í lýðræðislegu samfélagi okkar,“ skrifar Linde.

Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands, segir Tyrki ekki geta fallist á inngöngu Svía og Finna vegna meints stuðnings þeirra við hryðjuverkasamtök.