„Þetta kemur ekki á óvart,“ segir Kristján Jóhannsson, óperusöngvari, um ásakanir gagnvart kollega hans Plácido Domingo í samtali við Fréttablaðið. Níu konur komu fram í fjölmiðlum í gær og ásökuðu Domingo um kynferðislega áreitni.

„Það hefur verið tal um þetta í bransanum,“ nefnir Kristján sem er búsettur á Ítalíu. Að sögn Patricia Wulf, sem var sú eina sem kom fram undir nafni við ásakanirnar, hefur hegðun Domingo verið opinbert leyndarmál í áratugi.

Vissi ekki hvað þetta væri gróft

„Við erum ágætis kunningjar,“ segir Kristján sem vann með barítóninum Domingo árið 1993. Hann segir Domingo aldrei hafa sýnt slíka hegðun gagnvart sér en að hann hafi heyrt talað um áreiti söngvarans. „Ég vissi aldrei hvað þetta var gróft hjá honum,“ bætir hann við.

Domingo er 78 ára og hefur lengi verið einn vinsælasti óperusöngvari heims. Hann sakaður af 9 mismunandi óperusöngkonum og dönsurum um að hafa áreitt þær. Áreitnin átti sér stað yfir þriggja áratuga tímabil.

Samkvæmt konunum sem tjá sig við fréttamiðil AP notaði hann völd sín í óperuheiminum til þess að þrýsta á konur til að eiga í kynferðissambandi við sig. Á hann að hafa refsað konum sem neituðu honum um slíkt með því að koma í veg fyrir atvinnutækifæri þeirra.

Menn þurfa að passa sig í dag

„Það eru breyttir tímar í dag,“ segir Kristján sem telur að um ólíka heima sé að ræða. „Ég held að menn verði að passa sig í dag.“ Hann tekur þó fram að séu ásakanir sannar sé þetta óásættanleg hegðun hvort sem hún eigi sér stað í dag eða fyrir þrjátíu árum. „Svona lagað er aldrei í lagi.“

Óperuheimurinn logar eftir að ásakanirnar voru birtar og segir Kristján að mikið sé talað um málið á Ítalíu. „Það á svo eftir að koma í ljós hvað verður,“ segir hann að lokum.