Spegillinn hafnar því algerlega að pistlahöfundur RÚV hafi lýst yfir pólitískri afstöðu án tengsla við staðreyndir þegar fjallað var um skýrslu GRECO samtakanna, um íslenska stjórnsýslu. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra gagn­rýndi Ríkis­út­varpið og pistlahöfund RÚV harð­lega í grein sem birtist í Morgun­blaðinu í dag. Í greininni sagði hún pistlahöfund hafa kosið að „afflytja málið og lýsa pólitískri afstöðu án tengsla við staðreyndir.“

Spegillinn svaraði ásökunum Áslaugar í dag og tók sérstaklega fram að staðið verði við efni pistilsins. „Orð ráðherra um að fréttamaður hafi ekki greint rétt frá eru tilhæfulaus.“

Munur á frammistöðu

Sig­rún Davíðs­dóttir skrifaði í vikunni pistil um árangur ríkisins við að upp­fulla til­mæli GRECO, sam­taka ríkja innan Evrópu­ráðsins sem berjast gegn spillingu. Þar greindi hún frá því að Forsætisráðuneytið hafi þegar uppfyllt fern tilmæli GRECO en Dómsmálaráðuneytið hafi ekki enn uppfyllt nein tilmælanna.

„GRECO reikningsdæmið sýnir að það er töluverður munur á frammistöðunni í ráðuneytunum tveimur. Hvort það sýnir meiri áhuga og einbeitni á aðgerðum gegn spillingu innan forsætisráðuneytisins er spurning,“ sagði Sigrún í pistlinum. „Það má hugsanlega líta svo á að það taki í einhverjum tilfellum lengri tíma að koma til móts við GRECO-tilmælin varðandi löggæsluna. Þar þurfi lagabreytingar eða ný lög. Einhver tilmælanna gætu líka verið efni, sem er ekki samstaða um.“