Donald Trump, Banda­ríkja­for­seti, og keppi­nautur hans, Joe Biden, for­seta­fram­bjóðandi Demó­krata, hafa í dag og í gær kennt hvor öðrum um stig­magnandi of­beldi í Port­land borg í Oregon.

Hörð átók mót­mælenda­hópa, stuðnings­manna for­setans og lög­reglu hafa geisað í borginni undan­farna daga. Ný­liðna helgi var maður skotinn til bana þegar til á­taka kom á milli stuðnings­manna for­setans og mót­mælenda á vegum Black Lives Matter hreyfingarinnar.

Banda­ríkja­for­seti fór í gær hörðum orðum um borgar­stjórann Ted Wheeler á sam­fé­lags­miðlinum Twitter. Hann sakaði hann um að gefa grænt ljós á „dauða og eyði­leggingu“ eigin borgar. Hann segir borgar­búa þrá „lög og reglu“ sem borgar­stjórar Demó­krata­flokksins, líkt og Wheeler, og Joe Biden muni aldrei geta veitt þeim.

Í til­kynningu vegna málsins segir Biden að of­beldið í Port­land sýni svart á hvítu hvernig Banda­ríki for­setinn standi fyrir.

„Trump getur trúað því að það að tísta um lög og reglu geri hann sterkan, en brestur hans á því að kalla eftir því að stuðnings­menn sínir hætti að sækjast eftir á­flogum, sýnir hve veiklykndur hann er.“

Í frétt BBC um málið kemur fram að lög­reglan hafi enn ekki gefið upp nafn mannsins sem skotinn var um helgina. Stofnandi hægri öfga­hópsins „Pat­riot Pra­yer,“ sem er meðal stuðnings­hópa Trump, full­yrðir að maðurinn sem hafi látist hafi heitið Aaron „Jay“ Dani­el­son, og að hann hafi verið góður vinur sinn.

Til á­takanna kom eftir að um þúsund stuðnings­menn Trump þustu á um sex­hundruð bílum niðr­í mið­bæ Port­land. Sam­kvæmt lög­reglunni voru tíu manns hand­teknir í ó­eirðunum.