Þjóðleikhúsið segir að ásakanir á hendur tónlistarmanninum Auðunni Lútherssyni, sem kallar sig yfirleitt Auður, séu á borði leikhússins. DV greindi fyrst frá þessu.

Fjölmargar ásakanir á hendur Auði hafa komið fram síðustu daga á samfélagsmiðlum. Samkvæmt heimildum DV hafa þær ásakanir verið ræddar á fundi í Þjóðleikhúsinu að Auði viðstöddum, ekkert hafi þó verið aðhafst enn sem komið er. Auður tekur þátt í uppsetningu á leikritinu Rómeó og Júlíu.

Í byrjun maí, þegar margir stigu fram til stuðnings #MeToo-byltingunni, setti Auður inn færslu á Twitter þar sem hann sagðist senda styrk og ást til þolenda ofbeldis. Sú færsla hefur hleypt illu blóði í marga á Twitter sem hafa sakað hann um að vera gerandi.

Forðast fjölmiðla

Auður lætur lítið fyrir sér fara í fjölmiðlum, í viðtali við Fréttablaðið í fyrra sagði hann að hann forðaðist fjölmiðla og viðtöl.

„Fyrir vikið hef ég verið til umræðu í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum sem ýmist einlægur geðsjúklingur, dópaður snillingur, kynóður poppari og síðan femínísk fyrirmynd. Það er ekki mitt að segja og ég held ég sé frekar góður í að hunsa þessar utanaðkomandi greiningar. Ég veit aðeins það eitt að ég er tónlistarmaður og að listin á hug minn og hjarta,“ sagði hann.