Arturas Leimontas hefur verið sýknaður af morði. Landsréttur sneri 16 ára fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem engin vitni eða bein sönnunargögn voru fyrir hendi sem sanna það sem borið var á Arturas.

„Þá sanna þau sérfræðilegu gögn sem fyrir liggja ekki heldur að atburðarásin hafi verið með þeim hætti sem í ákæru greinir og fyrir hendi er annar möguleiki sem hinir sérfróðu meðdómendur telja koma til greina og áður er lýst. Telst því ekki sannað, svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa [...] að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru,“ segir í dómnum sem birtist á vef Landsréttar í dag.

Telja líklegt að Egidijus hafi stokkið

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá lést Egidijus Buzelis, karlmaður á sextugsaldri eftir að hafa fallið sjö metra af svölum fjölbýlishúss í Úlfarsárdal í desember 2019. Fimm erlendir karlmenn sem voru á staðnum voru handteknir og fjórum þeirra var sleppt í kjölfarið. Arturas, sem er litháenskur, var að lokum ákærður og dæmdur fyrir bana samlanda sínum með því að hrinda honum fram af svölum á þriðju hæð.

Arturas hefur ávalt neitað sök og verjandi hans taldi að maðurinn sem lést hefði getað fallið fram af svölunum af öðrum völdum en atburðarásin var óskýr að mati dómsins. Sagði hann í skýrslutöku að Egidijus hefði stokkið fram af svölunum eins og þeir lærðu í herþjónustu í heimalandi sínu. Þá hafi hann hangið fram af veggnum og spyrnt aftur á bak með fótum, líkt og baksundsmaður við ræsingu sunds, og snúið sér í loftinu. Vitnisburður nágrannakonu styður þá frásögn að einhverju leyti en vitnið sagðist hafa haft þá tilfinningu að maðurinn hefði verið að „gera sig til að klifra.“

Landsréttur gerði athugasemd við rannsókn lögreglu og velti upp spurningum hvers vegna þetta var ekki athugað nánar í ljósi lýsinga vitnisins. „Lögreglan virðist ekkert hafa rannsakað þennan möguleika frekar. Þó liggur fyrir að í aðdraganda sviðsetningar lögreglu og greiningar lýsti verjandi ákærða því að framburður ákærða um stökk gæfi tilefni til þess að þeir sérfræðingar sem skila myndu áliti tækju kenningu hans til skoðunar auk þess sem ákærði lýsti vilja til að sýna lögreglu slíkt stökk.“