Líkamsleifarnar sem komu í veiðarfæri fiskibáts í Faxaflóa í febrúar síðastliðnum eru af Artur Jarmoszko, ungum pólskum manni, sem hvarf þann 1. mars 2017.  Niðurstaða réttarmeinafræðings lá fyrir fyrr í vikunni og í kjölfarið var aðstandendum tilkynnt að um Artur væri að ræða. Ekki leikur grunur á að neitt saknæmt hafi átt sér stað. 

Umfangsmikil leit

Um ári eftir hvarfið hóf lögregla rannsókn á líkamsleifum sem komu í veiðarfæri fiskibáts úti á Faxaflóa. Umfangsmikil leit var gerð á svæðinu þar sem beinin komu í veiðarfærin og fleiri líkamshlutar fundust. Að leitinni komu meðal annars áhöfn varðskipsins Tý, kafaradeild Landhelgisgæslunnar og kafaradeild ríkislögreglustjóra.

Þá var notast við kafbát, þar sem kafa þurfti á gríðarlegu dýpi þar sem kafarar komast ekki að. Kennslanefnd ríkislögreglustjóra var falið bera kennsl á líkamsleifarnar og voru sýni send til Svíþjóðar til greiningar, fyrst eitt sýni og viku síðar voru tvö sýni til viðbótar send út. 

Skýrslur teknar af fjölda fólks

Eftir hvarf Arturs í fyrra var víðtæk leit var gerð að honum og skýrslur teknar af fjölda fólks vegna rannsóknar á hvarfinu. Artur sást síðast laust fyrir miðnætti þann 1 mars í fyrra, í eftirlitsmyndavél á gangi í suðurátt eftir Suðurgötu í Reykjavík. 

Þá námu símamöstur í Kópavogi og á Álftanesi merki úr síma hans nóttina sem hann hvarf og var því gerð ítarleg leit að honum í fjörum við Fossvog. 

Artur var 26 ára þegar hann hvarf og hafði verið búsettur hér á landi í nokkur ár. 

Skömmu eftir hvarfið réð fjölskylda Arturs pólskan einkaspæjara til að grennslast fyrir um hvarfið, án árangurs. Formlegri leit var hætt 25. mars í fyrra, tæpum mánuði eftir hvarfið. 

Sem fyrr segir telur lögregla á þessari stundu að ekkert saknæmt hafi átt sér stað. Engin merki voru um áverka á líkama eða höfuðkúpu Arturs.