Mikið flóð nýrra bíla er á leiðinni frá bílmerkjum Volkswagen Group og má þar nefna nýjan Volkswagen Golf, Porsche Cayenne Coupe, Audi Allroad og Bentley Flying Spur. Tveir bílar gætu þó verið í kortunum án þess að það hafi verið staðfest af Volkswagen, en heimildir herma að þar á bæ sé verið að vinna að Tiguan Coupe bíl og Arteon Shooting Brake, sem hér sést á mynd. Sömu heimildir herma að von sé á þessum tveimur bílum í byrjun næsta árs. 

Talið er að Coupe útfærsla Tiguan jepplingsins muni sitja örlítið hærra á skörinni er kemur að vélarúrvali, en í honum mun bjóðast 2,0 lítra og 240 hestafla bensínvél með tveimur forþjöppum og 2,0 litra TSI bensínvél, 220 hestafla. Báðar tengjast þær 7 gíra sjálfskiptingu með tveimur kúplingum. Volkswagen Arteon Shooting Brake mun verða einskonar langbaksgerð bílsins með afturhallandi þaklínu. Þessi bíll verður líka einkonar kraftabíll því til greina kemur víst að vopna hann 400 hestafla VR6 vélinni. Þá hefur einnig heyrst að Volkswagen sé með Tiguan R og Arteon R bíla á teikniborðinu og að þeir báðir sjái dagsljósið strax á næsta ári.