Geim­ferðir Mikil­vægt skref verður brátt tekið í á­ætlunum Geim­ferða­stofnunar Banda­ríkjanna (NASA) um að koma mönnuðum geim­förum til tunglsins á ný. Þann 29. ágúst næst­komandi verður ó­mannaða geim­farinu Artemis I skotið frá jörðu. Mun það fara á spor­baug í kringum tunglið og á síðan að snúa aftur til jarðarinnar.

Leið­angur Artemisar I verður fyrsta ferð geim­flauga nýja Geims­kota­kerfisins (Space Launch Sy­stem eða SLS), sem hefur verið í þróun í rúman ára­tug. Flaugin á að fljúga með svo­kallað Óríon-hylki, sem getur borið fjögurra manna á­höfn en verður ó­mannað í þetta sinn. Eftir að flaugin er komin út fyrir and­rúms­loft jarðarinnar mun hylkið losna af henni og fara á spor­baug um tunglið án hennar.

Fyrsta konan á tunglinu?

Artemis I er að hluta til drifin á­fram af vélar­hlutum sem hlutu eld­skírn sína í Geim­skutlu­á­ætluninni. Fjórar helstu vélar flaugarinnar eru endur­unnar úr flaugum eldri á­ætlunarinnar og hafa þær áður verið úti í geimi. Flaugin er jafn­framt búin tveimur gegn­heilum elds­neytis­eld­flaugum sem á­ætlað er að losni af Artemis þegar hún yfir­gefur gufu­hvolf jarðar og hrapi niður í At­lants­hafið.

Ef leið­angur Artemisar I heppnast vel verður ferðin endur­tekin með leið­angrinum Artemis II árið 2024, nema hvað í þetta sinn verða geim­farar um borð. Loka­mark­miðið er svo förin Artemis III sama ár, en í henni er á­ætlað að geim­farar stígi fæti niður á yfir­borð tunglsins. Ef allt fer að óskum verður það í fyrsta skiptið frá leið­angri Apolló 17 árið 1972 sem mann­fólk gengur í myrkum mána­fjöllum. Jafn­framt hefur NASA lofað að þetta verði í fyrsta sinn sem kona og þel­dökk manneskja stígi fæti á tunglið.

Moonikin Campos liðs­foringi

Flug­tak Artemisar I verður frá Kenn­e­dy-eld­flauga­stöðinni í Flórída. Vert er að at­huga að skoti geim­farsins hefur áður verið frestað og dag­setningar hafa þegar verið valdar í septem­ber ef til frekari frestana skyldi koma.

Búið er að koma öllum nauð­syn­legum búnaði fyrir í Óríon-hylkinu sem fer þorra leiðarinnar til tunglsins. Í stað raun­veru­legar á­hafnar verða þrjár gínur um borð í hylkinu, þar á meðal ein undir nafninu Moon­ikin Campos liðs­foringi. Það á­gæta nafn bar sigur úr býtum í nafna­keppni innan NASA og var valið til að heiðra raf­magns­verk­fræðinginn Arturo Campos, sem vann bæði að Apolló-á­ætluninni og Geim­skutlu­á­ætluninni. Nafnið sem lenti í öðru sæti var Delos, sem er eyjan þar sem syst­kinin Apolló og Artemis fæddust í grískri goða­fræði.