„Þetta er aðeins öðruvísi en venjulega og kannski svolítið skrýtið að maður sé að fara til útlanda á þessum tíma,“ segir kokkurinn Sigurður Laufdal, en hann mun keppa í forkeppni Bocuse d'Or í Eistlandi 15.‌ október fyrir Íslands hönd.

Sigurður og teymið á bak við hann, sem telur 10 manns, flugu til Eistlands í gær. Hópurinn var skimaður fyrir brottför en einnig við komuna til Eistlands. Ef enginn er sýktur verður farið að undirbúa stóra kvöldið, en Ísland hefur alltaf komist í gegnum undankeppnina og keppt í lokakeppninni í Lyon. Sú keppni er áætluð í júní á næsta ári.

Bocuse d’Or er ein virtasta matreiðslukeppni sem haldin er í heiminum, en hún hefur verið haldin síðan 198, Færri komast að en vilja og því er haldin undankeppni. Alls keppa 24 þjóðir á lokakvöldinu.

Hópur af Íslendingum ætlaði að fara með til að styðja við bakið á Sigurði, en eins og á íþróttakappleikjum eru áhorfendur bannaðir, þannig að aðrir en keppendur og þjálfarar urðu eftir. „Ég þarf að enda í topp 10 til að komast í lokakeppnina. Keppnin í Lyon átti að vera í janúar og hefur alltaf verið þá. Það verður ekkert nema snilld að elda í sumarhitanum í Lyon,“ segir hann og hlær. „Það hefur verið brjáluð stemmning á pöllunum. En nú verður ekkert. Bara þögn, sem gerir þetta aðeins öðruvísi. Það er ótrúlega gaman að elda fyrir brjálaða íslenska stuðningsmenn sem hvetja mann áfram. Það hafa 50-100 Íslendingar farið á þessar keppnir í gegnum árin og látið vel í sér heyra svo eftir hefur verið tekið. Hvatning þeirra gefur manni smá orku,“ segir Sigurður, en hann tók þátt í keppninni árið 2013.

Sigurður og félagar eiga að elda sjö stykki af eistneskri lynghænu í heilu og með lynghænueggi ásamt hinum drulluga catfish, sem veiðist ekki við Íslandsstrendur. „Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki íslenska heitið á honum. Ég hafði aldrei eldað svona fisk áður en ég fór að æfa mig.“

Það er mikill undirbúningur búinn að fara í æfingar enda átti forkeppnin fyrst að vera í maí, svo í september, en nú var ákveðið að láta slag standa og halda keppnina í október. „Þetta er aðeins stærra en að ég sé að fara bara með kokkagallann til Eistlands. Sælkeradreifing bjargaði okkur um fiskinn og hænuna, Hafstúdíó hannaði fatið undir hænuna og Fastus stillti eldhúsinu upp eins og það verður í Eistlandi ásamt fleiri styrktaraðilum sem hafa komið að þessu.

Við höfum verið við æfingar í meira en ár. Mætt um átta og göngum frá um klukkan 18 alla virka daga, nema í COVID-fríinu í mars. Við byrjuðum að taka tímaæfingar fyrir um tveimur mánuðum og gerðum þá í raun allt eins og við munum gera í keppninni. Þá erum við fimm og hálfan tíma í búrinu með þjálfara með okkur þannig við erum tilbúnir – kannski bara of tilbúnir. Það er ekkert víst að þetta klikki,“ sagði hann bjartsýnn áður en hann steig upp í flugvél og hélt af stað til Eistlands.