Ársreikningur Íslandspósts fyrir 2021 bendir til verulegs taps á innlendri póstþjónustu.

Erfitt er að meta nákvæmlega hve mikið tapið er vegna þess að Íslandspóstur veitir ekki upplýsingar um sundurliðun þátta.

Hagnaður af rekstri Íslandspósts var 255 milljónir á síðasta ári. Án 563 milljóna framlags ríkisins vegna alþjónustuskyldu hefði tapið numið meira en 300 milljónum.

Fyrir liggur að jákvæð afkoma er af millilandapóstsendingum.

Tapið af innlendri póstþjónustu er því líklega meira en 300 milljónir.

Fréttablaðið hefur óskað eftir upplýsingum frá Íslandspósti og Byggðastofnun, sem hefur eftirlitshlutverk gagnvart Íslandspósti, um hvernig tapið samræmist 3. mgr. 17. gr. laga um póstþjónustu nr. 98/2019, sem kveður skýrt á um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Einnig hefur Fréttablaðið beðið innviðaráðuneytið, sem fer með eftirlit gagnvart Byggðastofnun, um að útskýra afstöðu sína, en því hefur verið haldið fram að ofangreind lög séu „óvirk“, hvernig sem svo má vera með gildandi lög.