Árið 2005 voru laun forstjóra Landsvirkjunar 17 milljónir og launakjör staðgengils forstjóra og fimm framkvæmdastjóra 72 milljónir. Laun þeirra sem gegna þessum störfum í dag hafa hækkað gríðarlega og þá sérstaklega á síðustu fimm árum. Þannig var forstjóri Landsvirkjunar með 41 milljón í laun á síðasta ári en staðgengill forstjóra og fimm framkvæmdastjórar skiptu á milli sín 171 milljón. Landsvirkjun er stærsta fyrirtækið í eigu ríkisins.

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar þingmanns Miðflokksins sem birt er á vef Alþingis. Þorsteinn óskaði eftir að vita hvernig starfsmannafjöldi Landsvirkjunar hafi þróast síðustu 20 árin. Þá óskað hann einnig eftir upplýsingum um fjölda starfsmanna árum á tímabilinu 1999–2019.

Þá spurði Þorsteinn einnig hvernig launakjör æðstu stjórnenda hafi breyst á sama tíma. Var farið fram á að vita launakjör yfirstjórnar, forstjóra, aðstoðarforstjóra, fjármálastjóra og annarra framkvæmdastjóra.

Í svari Bjarna kemur fram að árið 1999 var meðalfjöldi starfsmanna 372 og stöðugildi 265 við árslok. Á síðasta ári var meðalfjöldi starfsmanna 470 og stöðugildin 429.

Laun forstjóra og stjórnenda hafa hækkað hratt á síðustu fimm árum. Þannig voru laun forstjóra 20 milljónir árið 2014 en 41 milljón á síðasta ári.

Í síðasta ársreikningi kemur fram að forstjórinn hafi 3.4 milljónir í laun ásamt hlunnindum og aðstoðar forstjóri og fimm framkvæmdastjórar um 2,5 milljón sé upphæðinni deilt niður á þessa æðstu stjórnendur.