Árskort Strætó fyrir bæði aldraða og ungmenni á aldrinum 12 til 17 ára hækkar um tæpan helming með nýrri gjaldskrá sem tekur gildi 16. nóvember 2021, þetta verður gert samhliða innleiðingu á nýja rafræna greiðslukerfinu KLAPP.

Tólf mánaða kort fyrir þessa aldurshópa hækkar úr 25 þúsund krónum upp í 40 þúsund krónur. Engin breyting verður gerð á stöku fargjaldi fyrir aldraða. Þau munu áfram greiða 245 kr.

Samkvæmt tilkynningu frá Strætó er markmið breytinganna að einfalda gjaldskrána og gera öllum hópum kleift að kaupa mánaðarkort á hagstæðu verði. Mánaðarkort fyrir fullorðna mun lækka úr 13.300 kr. niður í 8.000 kr. Tilboðið þar sem þriðji hver mánuður er frír í appinu verður ekki lengur í boði.

Engin breyting verður gerð á stöku fargjaldi fyrir nema sem eru 18 ára og eldri. Það verður áfram 490 kr.

Stakt fargjald fyrir öryrkja lækkar úr 245 kr. niður í 170 kr. Í dag geta öryrkjar eingöngu keypt árskort á afslætti. Við breytinguna opnast möguleiki fyrir þá að kaupa mánaðarkort á 2.400 kr. Árskort fyrir öryrkja lækkar eftir breytinguna um 1.000 kr. og mun því kosta 24.000 kr. í stað 25.000 kr.

Þá verður ekki lengur hægt að greiða með farmiðum um borð í Strætó á höfuðborgarsvæðinu frá og með mars á næsta ári.

Handhafar tímabilskorta í gamla greiðslukerfi Strætó skulu leyfa gildistíma kortanna að renna út áður en skipt er yfir í KLAPP greiðslukerfið.