Indónesíska þingið hefur samþykkt ný lög sem banna kynlíf utan hjónabands og takmarka pólitískt frelsi. BBC greinir frá.

Kynlíf utan hjónabands mun varða allt að árs fangelsi samkvæmt nýju hegningarlögunum sem taka gildi eftir þrjú ár. Nú þegar er kynlíf fyrir hjónaband bannað í Indónesíu en lögunum hefur ekki oft verið framfylgt. Nýju lögin ná yfir allt kynlíf utan hjónabands ekki eingöngu framhjáhald heldur einnig meðal ógiftra para.

Breytingarnar koma í kjölfar aukinnar trúarlegrar íhaldssemi í landinu þar sem múslimar eru í meirihluta. Margir telja lögin mikla hörmung fyrir mannréttindi í landinu og að þau geti haft mikil áhrif á ferðaþjónustu og fjárfestingar.

Ungt fólk hefur mótmælt löggjöfinni og er búist við því að þeim verði mótmælt fyrir dómstólum í Indónesíu.

Lögin gilda jafnt um heimamenn og þá sem heimsækja landið. Samkvæmt lögum geta ógift pör sem gripin eru við kynlíf átt yfir höfði sér allt að eins árs fangelsisvist.