Sema Erla Serdar, formaður hjálparsamtakanna Solaris, segir nýnasistaáróður sem nýlega spratt upp á stoppistöðvum Strætó vera mikið áhyggjuefni. Samtökin Norðurvígi sem að þeim standa boði ógeðfellt erindi. Hún segir samtökin stórhættuleg og að íslenskir nýnasistar hafi verið óhræddari að undanförnu við að dreifa hatursáróðri sínum.
Tilefnið er nýnasistaáróður sem samtökin hafa dreift á stoppistöðvum Strætó. Guðmundur Jörundsson vakti athygli á skilaboðum samtakanna á Twitter sem límd höfðu verið yfir auglýsingu Extra tyggigúmmíframleiðanda á stoppistöð á Gullinbrúnni.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, hvetur farþega til þess að kroppa límmiðana í burtu verði þeir varir við þá. Hann segir að staðan verði tekin á fleiri stoppistöðvum í dag. Sjálfur hafi hann kroppað umræddan áróður af strætisvagnastöðinni við Gullinbrú.
Hann varar þó við því að fara þurfi að öllu með gát þar sem dæmi séu þess að rakvélablöð hafi verið fest aftan á límmiðana sem um ræðir.
Vá hvað þetta er sjúkt og ógeðslegt pic.twitter.com/GaGuZzD2Mb
— Guðmundur Jörundsson (@gudmundur_jor) October 18, 2020
Alvarleg þróun
„Í mínum augum er um mjög alvarlega þróun að ræða í okkar samfélagi. Ég hef um tíma fylgst með samtökum eins og þessum og hef orðið vör aukinn sýnileika þeirra,“ segir Sema Erla við Fréttablaðið vegna fregna af umræddum áróðri.
Hún segir að nýnasistar hafi ætíð, að minnsta kosti í einhverjum mæli, starfað undir yfirborðinu á Íslandi og farið huldu höfði. Upp á síðkastið hafi orðið breyting þar á.
„Stærsta breytingin er sú að umræddir einstaklingar eru orðnir óhræddari við að koma fram undir nafni. Og það er til merkis um að þeir hafi verið að stappa í sig stálinu og krafturinn í þeim að aukast. Það er eitthvað sem við öll eigum að hafa áhyggjur af,“ segir hún.
„Og það er kannski það sem hefur breyst, vegna þess að um tíma hafa fjölmiðlar og aðrir reynt að komast í samband við Norðurvígi en þeir hafa aldrei viljað koma fram undir nafni. En ef þú ferð inn á heimasíðuna þeirra í dag að þá eru menn að koma fram undir nafni, merktir færslum, þannig þarna ertu búinn að bera kennsl á ákveðna leiðtoga í þessari hreyfingu.“

Normalísering að eiga sér stað í umræðunni
Sema segir slíka orðræðu líkt og þá sem nýnaistar leggi fyrir sig um útlendinga vera að færast í aukana.
„Þetta hefur verið að færast í aukana síðastliðnu ár og hefur verið normalíserað. Sem er ótrúlega sorglegt því íslenskt samfélag er fjölmenningarsamfélag og því verður ekki haggað,“ segir Sema.
„Eins og ég segi hefur þetta alltaf verið til staðar, en þetta er orðið sýnilegra og ég tala nú ekki um þegar þú ert kominn með stjórnmálafólk, stjórnmálaflokka sem eru að ala á þessari andúð í garð útlendinga, flóttafólks, múslíma og annarra jaðarsettra hópa að þá er þetta normalíserað. Og þá verða aðrir óhræddari við að stíga fram undir þessum formerkjum.“
Hún ítrekar að lokum að um sé að ræða stórhættulega þróun frir íslenskt samfélag.
„Því þetta eru samtök sem eru hættuleg. Þau eru hættuleg einstaklingum, þau eru hættuleg minnihlutahópum í samfélaginu okkar og samfélaginu öllu í heild sinni. Samtök eins og þessi á norðurlöndunum eru þekkt bæði fyrir hryðjuverk, ofbeldi og morð. Þau hafa meðal annars verið bönnuð í Finnlandi.
Þannig það er bara mjög mikilvægt að þessu verði ekki tekið þegjandi og hljóðalaust og að fólk láti í sér heyra þegar það verður vitni að hvort sem það eru nýnaistar eða önnur birtingarmynd fordóma og rasisma.
Vegna þess að við sem samfélag eigum aldrei að samþykkja það að samtök eins og þessi og þeirra ógeðfelldi boðskapur verði einhver hluti af því sem telst eðlilegt í þessu samfélagi.“