Sema Erla Serdar, for­maður hjálpar­sam­takanna Solaris, segir ný­nasista­á­róður sem ný­lega spratt upp á stoppi­stöðvum Strætó vera mikið á­hyggju­efni. Sam­tökin Norður­vígi sem að þeim standa boði ó­geð­fellt erindi. Hún segir samtökin stór­hættu­leg og að íslenskir nýnasistar hafi verið óhræddari að undanförnu við að dreifa hatursáróðri sínum.

Til­efnið er ný­nasista­á­róður sem sam­tökin hafa dreift á stoppi­stöðvum Strætó. Guð­mundur Jörunds­son vakti at­hygli á skila­boðum sam­takanna á Twitter sem límd höfðu verið yfir aug­lýsingu Extra tyggi­gúmmífram­leiðanda á stoppi­stöð á Gullin­brúnni.

Guð­mundur Heiðar Helga­son, upp­lýsinga­full­trúi Strætó, hvetur far­þega til þess að kroppa lím­miðana í burtu verði þeir varir við þá. Hann segir að staðan verði tekin á fleiri stoppistöðvum í dag. Sjálfur hafi hann kroppað um­ræddan á­róður af strætis­vagna­stöðinni við Gullin­brú.

Hann varar þó við því að fara þurfi að öllu með gát þar sem dæmi séu þess að rak­véla­blöð hafi verið fest aftan á lím­miðana sem um ræðir.

Al­var­leg þróun

„Í mínum augum er um mjög al­var­lega þróun að ræða í okkar sam­fé­lagi. Ég hef um tíma fylgst með sam­tökum eins og þessum og hef orðið vör aukinn sýni­leika þeirra,“ segir Sema Erla við Frétta­blaðið vegna fregna af um­ræddum á­róðri.

Hún segir að ný­nasistar hafi ætíð, að minnsta kosti í ein­hverjum mæli, starfað undir yfir­borðinu á Ís­landi og farið huldu höfði. Upp á síð­kastið hafi orðið breyting þar á.

„Stærsta breytingin er sú að um­ræddir ein­staklingar eru orðnir ó­hræddari við að koma fram undir nafni. Og það er til merkis um að þeir hafi verið að stappa í sig stálinu og krafturinn í þeim að aukast. Það er eitt­hvað sem við öll eigum að hafa á­hyggjur af,“ segir hún.

„Og það er kannski það sem hefur breyst, vegna þess að um tíma hafa fjöl­miðlar og aðrir reynt að komast í sam­band við Norður­vígi en þeir hafa aldrei viljað koma fram undir nafni. En ef þú ferð inn á heima­síðuna þeirra í dag að þá eru menn að koma fram undir nafni, merktir færslum, þannig þarna ertu búinn að bera kennsl á á­kveðna leið­toga í þessari hreyfingu.“

Sema Erla hefur undanfarin ár verið ötul talskona fyrir mannréttindum útlendinga hér á landi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Normalí­sering að eiga sér stað í um­ræðunni

Sema segir slíka orð­ræðu líkt og þá sem ný­na­istar leggi fyrir sig um út­lendinga vera að færast í aukana.

„Þetta hefur verið að færast í aukana síðast­liðnu ár og hefur verið normalí­serað. Sem er ó­trú­lega sorg­legt því ís­lenskt sam­fé­lag er fjöl­menningar­sam­fé­lag og því verður ekki haggað,“ segir Sema.

„Eins og ég segi hefur þetta alltaf verið til staðar, en þetta er orðið sýni­legra og ég tala nú ekki um þegar þú ert kominn með stjórn­mála­fólk, stjórn­mála­flokka sem eru að ala á þessari and­úð í garð út­lendinga, flótta­fólks, múslíma og annarra jaðar­settra hópa að þá er þetta normalí­serað. Og þá verða aðrir ó­hræddari við að stíga fram undir þessum for­merkjum.“

Hún í­trekar að lokum að um sé að ræða stór­hættu­lega þróun frir ís­lenskt sam­fé­lag.

„Því þetta eru sam­tök sem eru hættu­leg. Þau eru hættu­leg ein­stak­lingum, þau eru hættu­leg minni­hluta­hópum í sam­fé­laginu okkar og sam­fé­laginu öllu í heild sinni. Sam­tök eins og þessi á norður­löndunum eru þekkt bæði fyrir hryðju­verk, of­beldi og morð. Þau hafa meðal annars verið bönnuð í Finn­landi.

Þannig það er bara mjög mikil­vægt að þessu verði ekki tekið þegjandi og hljóða­laust og að fólk láti í sér heyra þegar það verður vitni að hvort sem það eru ný­na­istar eða önnur birtingar­mynd for­dóma og ras­isma.

Vegna þess að við sem sam­fé­lag eigum aldrei að sam­þykkja það að sam­tök eins og þessi og þeirra ó­geð­felldi boð­skapur verði ein­hver hluti af því sem telst eðli­legt í þessu sam­fé­lagi.“