Aðalmeðferð í máli Árnmars Jóhannesar Guðmundssonar, sem í apríl var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir skotárásina á Egilsstöðum í lok ágúst í fyrra, fer nú fram í Landsrétti.

Dómur féll í Héraðsdómi Austurlands 20. apríl síðastliðinn en Árnmar var dæmdur fyrir tvær tilraunir til manndráps, vopnalagabrot, brot í nánu sambandi, húsbrot, eignaspjöll og brot get valdstjórninni.

Árnmar undi ekki dómnum og áfrýjaði til Landsréttar sem tekur nú málið fyrir í dag og á morgun. Í héraði játaði Árnmar sök að hluta en neitaði alvarlegustu sakargiftunum, tilraunum til manndráps.

Hann var fjarverandi í Landsrétti í morgun en hann fer fram á að verða sýknaður af brotum sem hann neitaði sök á fyrir héraðsdómi og til vara að vægasta refsing hljótist.

Þá krefst hann einnig að vera sýknaður af skaðabótakröfum eða þær verulega lækkaðar og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Afbrýðisemi og slúður

Samkvæmt dómi héraðsdóms kemur fram að mikil afbrýðisemi Árnmars í garð fyrrverandi maka sambýliskonu sinnar hafi verið kveikjan að skotárásinni. Árnmar og sambýliskonan hans hugðust gifta sig þremur dögum eftir árásina að því er fram kom í skýrslutöku hans fyrir héraðsdómi.

Að mati dómsins þótti framburður sambýliskonu hans trúverðugur en frásögn Árnmars þótti aftur á móti gloppótt „og verður að ætla að þar hafi komið til þau minnisglöp, sem hann hefur haldið fram að hafi hrjáð hann, auk nokkurs ölvunarástands, samfara lyfjatöku samkvæmt læknisráði.“

Hótaði að beita vopni

Lögreglan á Egilsstöðum fékk tilkynningu seint á fimmtudagskvöldi 26. ágúst í fyrra um skotmann inni á heimili í Dalseli sem hótaði að beita vopni sínu.

Þegar lög­regla kom á vett­vang heyrðust skot­hvellir meðan við­komandi var inni, en ekki var vitað á þeim tíma­punkti hvort fleiri væru í húsinu.

Eftir um klukku­stund kom maðurinn út úr húsinu og skaut þá að lög­reglu. Var hann í kjöl­farið skotinn í kviðinn. Síðar kom í ljós að maðurinn hafi verið með öflugan loftriffill á sér.

Maðurinn var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann gekkst undir aðgerð.

Hleypti af byssi í átt að lögreglu

Árnmari var gefið að sök að hafa ætlað að bana húsráðenda sem var fyrrverandi eiginmaður og barnsföður sambýliskonu hans. Sá var þó ekki á staðnum. Hann hleypti af byssunni innandyra og á tvo bíla sem þar voru.

Þá hleypti Árnmar meðal annars af byssu í átt að lögreglumönnum á vettvangi en hann neitaði því fyrir dómi að vera sekur um tilraun til manndráps. Hann lýsti eftirsjá vegna málsins og sagðist hafa ætlað að láta lögreglu binda enda á líf sitt.

Árnmar var einnig ákærður fyrir brot í nánu sambandi og vopnalagabrot en hann hótaði sambýliskonu sinni meðal annars með skammbyssu.

Þá ógnaði Árnmar tveimur drengjum með haglabyssu og skammbyssu innan og utandyra í íbúðabyggð.

Drengirnir sátu í sófa er Árnmar beindi hlaðinni haglabyssu að þeim og brugðust þeir við með því að flýja út um dyr sem lágu út á verönd við húsið framanvert og síðan inn í nærliggjandi skóg.

Þekkti skotvopn vel

Líkt og fyrr segir neitaði Árnmar sök á tilraunum til manndráps en héraðsdómur taldi að þegar Árnmar skaut að lögreglu af tíu til tólf metra færi hefði honum hlotið að vera ljóst að líklegast væri að lífstjón gæti hlotist af vegna þekkingar hans á skotvopnum.

Árnmari var gert að greiða eiginmanninum fyrrverandi tæpar 2,5 milljónir króna fyrir munatjón og miskabætur. Þá var honum gert að greiða sambýliskonu sinni 750 þúsund krónur og tveimur sonum hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar tvær milljónir króna.

Þá var honum einnig gert að greiða allan sakarkostnað sem nam rúmum tíu milljónum króna.