Sagnfræðingurinn Árni H. Kristjánsson segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, ásamt fleirum, hafa framið ritstuld við ritun Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Ásgeir var einn af höfundum skýrslunnar sem kom út á vegum Alþingis 2014.

Ásgeir var á dögunum sakaður um ritstuld af rithöfundinum Bergsveini Birgissyni sem segir seðlabankastjóra hafa byggt á bók sinni, Leit­in að svarta vík­ingn­um, í bókinni Eyj­an hans Ing­ólfs, án þess að Berg­sveins sé þar getið. Ásgeir hefur neitað allri sök og í pistli sem hann birti á Facebook 10. desember furðaði hann sig á því að hafa verið „þjófkenndur í fyrsta skipti á ævinni“.

Árna þótti skjóta skökku við að seðlabankastjóri léti þessi ummæli falla því að hans sögn er þetta ekki í fyrsta skiptið sem hann hefur verið sakaður um ritstuld. „Ekki nóg með það heldur var það staðfest,“ segir Árni.

„Ég get engu svarað um þetta,“ segir Ásgeir Jónsson í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins. „Ég kom að þessu verki í raun á lokastigum, var einn margra höfunda að skýrslunni og fékk afhent efni sem mér var sagt að væri í eigu nefndarinnar. Ég veit ekki meira um málið,“ segir hann og bætir því við að eftir hans bestu getu sé efnið sem hann vann fyrir skýrsluna í eigu nefndarinnar.

Þá tekur hann fram að vinna hans hafi ekkert tengst deilum Árna við aðra nefndarmenn og hann hafi ekki haft hugmynd um neinar höfundarréttardeilur.

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.
Fréttablaðið/Valli

Átti að skrifa sögulegt yfirlit

Árið 2013 sendi Árni frá sér bókina Hugsjónir, fjármál og pólitík: Saga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sjötíu og sjö ár sem gefin var út af Sögufélaginu. Árni segir sagnfræðilegan hluta skýrslu rannsóknarnefndarinnar byggja að miklu leyti á sínum rannsóknum sem birtar voru í bók hans en þó er hvergi minnst á Árna og þá er ekki minnst á bók hans í skýrslunni.

„Um leið og ég hóf lestur hennar rak mig í rogastans því á köflum fannst mér sem ég væri að lesa upp úr eigin bók. Þá virtist mér sem grundvallarniðurstöður skýrslunnar væru kolrangar,“ segir Árni í óbirtri grein sem ber titilinn „Gramsað í texta“ og Fréttablaðið hefur undir höndum.

Þetta skýrist með því að Árni var haustið 2011 ráðinn til að skrifa sögulegt yfirlit um sparisjóði fyrir rannsóknarnefndina og 4. október 2011 afhenti hann nefndinni afrit af ófullgerðu handriti bókarinnar sem sýnishorn af vinnubrögðum sínum. Árni sagði sig frá störfum nefndarinnar 1. febrúar 2012 vegna ágreinings um höfundarrétt en nefndin hélt eftir handritinu og notaði það óspart við skrif skýrslunnar, að sögn Árna, þrátt fyrir að hann legði formlega blátt bann við því.

Einn þeirra sem rannsóknarnefndin réði til að skrifa sagnfræðilegan hluta skýrslunnar var Ásgeir Jónsson. Í Viðauka E við skýrslu rannsóknarnefndarinnar í lista yfir starfsmenn og ráðgjafa nefndarinnar er hann nefndur sem Ásgeir Jónsson, Ph.D. í hagfræði. Þá er hlutverki hans við ritun skýrslunnar lýst svo í greinargerð sem rannsóknarnefndin sendi frá sér dagsett 11. ágúst 2014:

„Þá má benda á, að sagnfræðingar störfuðu og fyrir nefndina, t.d. starfaði dr. Ásgeir Jónsson, sérfræðingur í alþjóðafjármálum, peningamálafræði og hagsögu, fyrir nefndina við ritun sagnfræðihluta um sögu og bakgrunn sparisjóðanna, bæði á Íslandi og erlendis.“

Höfnuðu 20 stunda launakröfu

Árni segir farir sínar við rannsóknarnefndina ekki sléttar og segir að framkoma nefndarmanna í hans garð hafi verið „vægast sagt smánarleg“ eftir að störfum hans lauk. Að sögn Árna hafnaði nefndin launakröfu hans upp á aðeins 20 vinnustundir eftir tæplega þriggja mánaða vinnu. Auk þess sem nefndin fyrirskipaði að lokað yrði alfarið fyrir aðgang Árna að gögnum SPRON hjá slitastjórn SPRON, sem hann hafði fram að því nýtt sér við skrif bókar sinnar.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Skýringar nefndarinnar á ákvörðun sinni voru fráleitar en borið var við bankaleynd. Ef til vill þó skiljanlegar í ljósi þess að nefndin hafði handrit mitt undir höndum. Það er ekki óvarlegt að ætla að nefndin hafi ákveðið að bregða fyrir mig fæti í þeirri von að bók mín kæmi aldrei út. Með því móti væri ólíklegra að ritstuldurinn kæmist upp,“ segir Árni.

Í óútgefinni grein sinni fer Árni yfir sögu málsins og rökstyður fullyrðingar sínar um ritstuld með því að bera saman textadæmi úr bók sinni við textadæmi skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í niðurlagi greinarinnar segir Árni:

„Ég tel að greinargerð þessi sýni, svo að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa, að starfsmenn Rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika falls sparisjóðanna séu sekir um ritstuld úr handriti/bókinni, Saga SPRON.

Nefndin hótaði aðgerðum

Árni og Sögufélag, útgefandi bókarinnar, óskuðu eftir skýringum hjá Alþingi í maí 2014. Rannsóknarnefndin var krafin um skýringar og gert að skila Alþingi greinargerð. Nefndin skilaði greinargerð í ágúst sama ár. Þar var öllum misgjörðum alfarið hafnað og þess farið á leit að hlutaðeigendur sendu frá sér yfirlýsingu sem hreinsaði nefndina af ávirðingunum. Að öðrum kosti áskildu nefndarmenn sér allan rétt í málinu til viðbragða.

„Nefndarmenn geta ekki fallist á þær ávirðingar sem settar eru fram í greinargerð Árna H. Kristjánssonar, og eins og sjá má í þessari greinargerð eru þær lítilvægar og ekki á rökum reistar,“ segir í greinargerð nefndarinnar.

Alþingi tók skýringar rannsóknarnefndarinnar gildar þrátt fyrir að Árni hafi sýnt fram á ritstuld í grein sinni. Árni gagnrýnir viðbrögð Alþingis og segir það hafa gert allt til þess að eyða málinu. En Árni birti auk þess pistil í Fréttablaðinu þann 9. maí 2014 þar sem hann segir grundvallarniðurstöður skýrslunnar vera rangar.

grein.jpg

„Viðbrögð rannsóknarnefndarinnar, á opinberum vettvangi og í greinargerð sinni, bera þess augljós merki að nefndarmenn voru að reyna að verja óverjandi og ólöglegar gjörðir eftir afhjúpun. Markmið þeirra var að freista þess að breiða yfir óheiðarleg vinnubrögð og í því skyni var oft á tíðum langt gengið,“ segir í grein Árna.

Að sögn hans eru skýringar nefndarinnar fráleitar og standast engan veginn skoðun. Þá segir hann það sæta firnum „að háskólamenntað fólk telji sjálfsagt að vísa ekki til heimilda og það er engu líkara en að nefndarmenn og skýrsluhöfundar skilji ekki hugtakið ritstuldur.“

Dæmi_ritst.jpg

Báðir textarnir sækja efni til Gunnars Karlssonar, „Fyrsti sparisjóður á Íslandi?“, í Afmælisriti Björns Sigfússonar (Rv. 1975), bls. 88, og vísa í þá heimild. Orðalagið í SRA („dönsku sparisjóðirnir [fóru] að reyna að ávaxta sig sjálfir með útlánum og lánuðu þeir þá aðallega til framkvæmda með veðum í fasteignum“) er nánast hið sama og hjá ÁHK, bls. 26 („tóku sjóðirnir að reyna að ávaxta sig sjálfir með útlánum og lánuðu þeir þá einkum til landbúnaðarframkvæmda gegn veði í fasteignum“). Orðalagið í grein Gunnars Karlssonar er öðruvísi.

Enginn vafi á ritstuldi

Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi forseti Sögufélagsins, sendi bréf til Alþingis 19. maí 2014 þar sem Sögufélagið og Árni óskuðu eftir því að Alþingi léti gera rannsókn á meintum ritstuldi. Alþingi dró það í rúmt ár að bregðast við en úr varð að sérfróðir matsmenn voru skipaðir 3. júní 2015, þeir Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, og Páll Sigurðsson, prófessor emeritus í lögfræði, báðir við Háskóla Íslands. Skiluðu þeir svo Alþingi álitsgerð sinni 3. júlí 2015.

„Niðurstaða okkar er sú að í allnokkrum tilvikum sé texti skýrslunnar svo líkur texta Árna H. Kristjánssonar, bæði varðandi orðalag og efni, að telja megi án vafa að um ritstuld sé að ræða. Alls eru þetta 24 af 60 tilvikum sem Árni H. Kristjánsson nefnir sem dæmi um ritstuld,“ segir í niðurstöðum álitsgerðarinnar.

Árni segir að Rannsóknarnefndin hafi svo sannarlega fengið að njóta vafans hjá matsmönnum. „Til dæmis var það ekki talið vera ritstuldur ef skýrsluhöfundar slysuðust til að hafa sömu tilvísun og ég. Eins sluppu þeir ef vísað var í lög þó að lítið í textanum væri þar að finna. Þá komust þeir upp með ritstuld þar sem alls engar tilvísanir voru. Engu að síður er niðurstaða matsmanna alvarlegur áfellisdómur yfir skýrsluhöfundum enda staðfest að íslensk höfundalög voru þverbrotin.“

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar um orsakir og fall sparisjóðanna var tekin fyrir á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í maí 2016.
Fréttablaðið/Ernir

Rannsóknarnefndin viðurkenndi í greinargerð sinni að starfsmenn nefndarinnar, þeir Vífill Karlsson og Einar Þorvaldur Eyjólfsson, hafi haft handrit Árna undir höndum allan ritunartíma rannsóknarskýrslunnar og nýtt „eitt og annað“ úr óbirtu handriti Árna við ritun viðauka A við skýrsluna „Hagsaga sparisjóðanna“.

„Efnið, sem finna má í viðauka A við skýrsluna og er, að því nefndarmenn best vita, höfundaverk dr. Vífils Karlssonar og birt í hans nafni ásamt samstarfsmanns við þá vinnu, hafði nefndin heimild til að nýta sér og vísa til að vild. Vafalaust má finna umfjöllun í skýrslunni sjálfri, sem byggir að einhverju leyti á því efni og vinnu þeirra,“ segir í greinargerð rannsóknarnefndarinnar frá 11. ágúst 2014.

Þá vildi nefndin meina í greinargerð sinni að ekki þyrfti alltaf að vísa til heimilda. Að sögn Árna er það fráleitt því eins og sérfróðir matsmenn hnekktu á í álitsgerð sinni: „Í samræmi við viðurkennd sjónarmið í vísindasamfélaginu telja undirritaðir að jafnan skuli getið heimilda þegar hugverk annarra manna eru notuð og gildir einu hvort í hlut eiga fræðirit, almenn rit eða opinberar skýrslur.“

Svívirðileg framkoma gagnvart Bergsveini

Árni greindi upphaflega frá málinu í fjölmiðlum 2014 og var meðal annars fjallað um það í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 25. apríl sama ár. Um ástæður þess að hann ákvað að stíga aftur fram núna segir Árni:

„Í lok árs 2016 var ég langt kominn með greinina „Gramsað í texta“ þar sem málið er rakið og átti greinin að birtast í vorhefti Tímaritsins Sögu. Þá var mér skyndilega kippt úr leik þar sem yngsti sonur minn, Ólafur Ívar, veiktist lífshættulega. Við tók tímabil þar við foreldrarnir vorum lengi við hlið hans á sjúkrahúsum heima og erlendis. Það sem fékk mig núna til þess að rakna úr rotinu með þetta mál er svívirðileg framkoma gagnvart Bergsveini Birgissyni og að Ásgeir skuli segja að hann hafi aldrei verið þjófkenndur fyrr. Honum hefur eflaust verið órótt þegar ég fór af stað á sínum tíma en þá var allt gert til þess að þagga málið niður.“

Að sögn Árna er óumdeilt að rannsóknarnefndin hafi viðurkennt ritstuld enda hafi efni hans ratað víða í skýrsluna. Þá hafi ritstuldurinn aukinheldur verið staðfestur í álitsgerð matsmanna. „Eftir stendur spurningin, af hverju tóku skýrsluhöfundar upp á þessum óheilindum? Líklegasta skýringin er sú að nefndin missti tökin á verkefninu eins og ítrekaðar frestanir, himinhár kostnaður og rangar niðurstöður bera með sér. Þar sem handrit mitt og síðar bókin var við höndina þá hafi skýrsluhöfundar freistast til að stytta sér leið. Loks má nefna þá staðreynd að enginn sagnfræðingur var ráðinn í minn stað en Ásgeiri Jónssyni hagfræðingi stillt upp sem sagnfræðingi. Það er afar ólíklegt að sagnfræðingur hefði viðhaft eins hrakleg vinnubrögð og skýrsluhöfundar,“ segir Árni.

Að sögn hans er það grafalvarlegt að starfsmenn nefndarinnar, sem hafi verið afhjúpaðir fyrir ritstuld, skuli enn geta starfað sem fræðimenn og kennarar við æðri menntastofnanir.

„Ef þeim þykir ritstuldur ekki vera neitt tiltökumál þá má minna á að hann varðar við íslensk höfundalög nr. 73/1972 þar sem refsiramminn er frá sektum til allt að tveggja ára fangelsis. Þetta mál leiðir hugann að því hvernig kennslu í aðferðafræði við háskóla er háttað. Ég hef orðið var við að nemendur við háskóla hafa vísað í Rannsóknarskýrsluna í lokaritgerðum sínum. Jafnvel í efni sem var tekið beint úr handriti mínu. Nær væri að leggja blátt bann við að vísa í skýrsluna þegar fjallað er um sparisjóði.“

Fréttin var uppfærð 18. desember kl. 11:24.