Árni Þór Sigurðsson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna og núverandi sendiherra Íslands í Finnlandi, segir í færslu á Facebook að hann hafi ekki vitað af því að Geir H. Haarde yrði skipaður sendiherra á sama tíma. Hann vísar þannig til samtals þingmannanna sex á Klaustur bar þann 20. nóvember þar sem, eins og frægt er orðið, Gunnar Bragi Sveinsson lét þau orð falla að hann hafi einungis skipað Árna til að varpa athygli frá skipan Geirs.

Árni Þór birti færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann fer yfir forsögu skipan hans í embætti sendiherra. Hann segir að hann hafi til að byrja með sótt um stöðu hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, sem hann hafi ekki fengið, en hafi í kjölfarið tjáð utanríkisráðherra, sem var þá Gunnar Bragi, að hann hefði áhuga á að starfa í utanríkisþjónustunni.

Skipan grundvölluð á menntun og reynslu

Hann segir í færslu sinni aldrei neitt annað hafa komið til greina en að hugsanleg skipun hans „yrði grundvölluð á menntun og reynslu sem myndi nýtast þjónustunni“ og fer síðar yfir þá menntun og reynslu sem hann hefur.

Hann segir að í öllu þessi ferli hafi hann aldrei beðið um stuðning frá forystu flokks síns, en á þessum tímapunkti var Árni Þór þingmaður fyrir hönd Vinstri grænna. Hann segir skipan hans sem ráðherra hafi eingöngu verið ákvörðun ráðherra og í samræmi við lög.

„Þeirri skipun fylgdu engin skilyrði um einhvern greiða í framtíðinni,“ segir Árni Þór í færslu sinni.

Árni fer síðan yfir það að hann telji jákvætt fyrir utanríkisþjónustu Íslands að í röðum hennar starfi fólk með fjölbreyttan bakgrunn, þekkingu og reynslu.

„Þótt kjarninn í hópi sendiherra verði ávallt skipaður einstaklingum með farsæla reynslu úr utanríkisþjónustunni er það henni til styrkingar að þangað veljist einnig fólk með reynslu úr atvinnulífi, háskólastarfi, menningarlífi, stjórnmálum o.s.frv. Það var síðan ákvörðun Alþingis á sínum tíma að undanskilja sendiherraembætti auglýsingaskyldu,“ segir Árni.

Vissi ekki að Geir yrði skipaður á sama tíma

Hann segir síðan að Gunnar Bragi hafi ekki tjáð honum á þessum tíma að Geir yrði skipaður samtímis honum. Hann vissi þó að tveir yrðu skipaðir og segir að nafn Geirs hafi verið nefnt í því samhengi en hann hafi ekki vitað hver ætti að vera skipaður samtímis honum.  

Árni segir að ákvörðun hans að hverfa úr stjórnmálum og í utanríkisþjónustu hafi byggst á því að hann hafi viljað nýta reynslu sína og menntun og segir því það sér  „óviðkomandi“ hverjir hafi á sama tíma og hann verið ráðnir til starfa í utanríkisþjónustunni.

Hann segir að lokum að ákvörðun hans hafi ekki verið gagnrýnislaus meðal flokksmanna hans í VG og þótt hann hafi skilið gagnrýni þeirra, þá hafi hann tekið hana nærri sér.

„Það er sannfæring mín að sanngjarnast sé að meta fólk út frá störfum sínum, árangri og umsögnum samstarfsfólks. Því mati kvíði ég ekki.“

Færslu Árna Þórs er hægt að lesa í heild sinni hér að neðan.