Árni H. Kristjánsson, sagnfræðingur, ítrekar ásakanir sínar um ritstuld á hendur Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra, við ritun Rann­sóknar­skýrslu Al­þingis um fall spari­sjóðanna í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Ásgeir bar af sér ásakanirnar í Facebook-færslu í vikunni en Árni segir varnartilburði hans „einkennast af fálmkenndum málflutningi“.

Árni gagnrýnir einhliða fréttaflutning á málinu og segir Ásgeir freista þess að stýra umræðunni á Facebook í stað þess að svara fyrir ásakanirnar í fjölmiðlum.

Hann bendir á ýmis atriði máli sínu til stuðnings, þar á meðal þá staðreynd að Rannsóknarnefnd Alþingis viðurkenndi ritstuldinn í greinargerð frá ágúst 2014 þar sem Ásgeir er einnig nefndur höfundur sagnfræðihluta um sögu sparisjóðanna.

„Það er einmitt Rannsóknarnefnd Alþingis sem segir hann hafa ritað sagnfræðihluta um sögu og bakgrunn sparisjóðanna, bæði á Íslandi og erlendis — nefnilega sama efni og var í handriti mínu og varðar ritstuld,“ segir Árni.