Árni Gils Hjaltason var í gær dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir tilraun til manndráps. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómir Reykjavíkur í gær. Þetta er í annað sinn sem Árni er sakfelldur í málinu en hann var á­kærður fyrir til­raun til mann­dráps og gefið að sök að hafa stungið annan mann með hnífi í höfuðið í á­tökum þeirra á milli í Breið­holti í mars 2017.

Hæstiréttur ómerkti dóminn

Árni var sakfelldur samkvæmt ákæru í desember 2017 en Hæsti­réttur vísaði málinu aftur heim í hérað og taldi málið ekki nægi­lega vel rann­sakað. Ó­sannað væri að or­sök á­verka brota­þola hefði orðið með þeim hætti sem haldið hafi verið fram í á­kæru.

Máls­vörn á­kærða byggði meðal annars á þeim mögu­leika að um slys eða sjálfs­vörn hafi verið að ræða en á­greinings­laust er að brota­þolinn kom með hnífinn á staðinn. Á­kæru­valdið byggði hins vegar á því að Árni hafi náð af honum hnífnum í á­tökunum og veitt honum fyrr­greindan á­verka.

Vinnubrögð réttarmeinafræðings ólögmæt

Vegna ó­merkingar Hæstaréttar þurfti að flytja málið á ný í héraði. Aðalmeðferð málsins fór fram í héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði og meðal um­deildustu þátta málsins eru mats­gerðir Sebastianz Kunz réttar­meina­fræðings.

Lands­réttur hafði þegar úr­skurðað að mats­gerð Kunz um tilkomu áverka brotaþolans, hafi ekki verið unnin í sam­ræmi við lög en telur hann þrátt fyrir það ekki van­hæfan í málinu. Kröfu verjanda um skipun nýs mats­manns var hafnað á fyrri stigum málsins.

Aðferðir Sebastians Kunz voru harðlega gagnrýndar af verjanda Árna við Aðalmeðferð málsins.
Fréttablaðið/Ernir

Fyrir liggur að réttar­fars­reglum var ekki fylgt við mats­gerð Kunz enda hélt Kunz hvorki mats­fund eins og skylt er og hafði heldur ekki fengið öll gögn málsins en sendi engu að síður frá sér skjal sem inni­hélt álit hans á því sem hann hafði verið beðinn um að meta. Verjandi Árna, Odd­geir Einars­son fór í fram­haldinu fram hjá að dóm­kvaðning Kunz yrði aftur­kölluð og nýr mats­maður fenginn í hans stað. Því var hafnað.

Við aðalmeðferðina lýsti Kunz niðurstöðu mats síns þannig að lang­lík­legast væri að á­verkinn hefði verið veittur með hnífi og sá sem veitti hann hafði staðið fyrir framan brota­þola eða að­eins til vinstri við hann beitt hnífnum með hægri hendi í þá mund sem brota­þoli var að rísa á fætur.

Ó­lík­legt hefði verið að á­verkinn hefði komið til fyrir slysni vegna þess hve miklum högg­þunga hefði þurft að beita og úti­lokað væri að brota­þoli hefði veitt sér á­verkann sjálfur.

Hjalti Úrsus, faðir Árna, fylgdist grannt með máli sonar síns og mætti með syni sínum til aðalmeðferðar málsins í héraðsdómi.
Ernir

Annað vitni sem gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins, vinkona brotaþolans á þeim tíma sem at­burðirnir gerðust, sagði á­verkana ekki af völdum Árna.

Sagði brotaþolann ljúga

„Það var alltaf verið að berja Aron á þessum tíma enda skuldaði hann peninga út um allt og líka út af ein­hverju grasi sem hann átti að hafa stolið af ein­hverjum mikil­vægum mönnum í undir­heimunum,“ sagði vitnið og fullyrti að brotaþolinn hefði mútað vin­konu sinni sem var sjónar­vottur að á­tökunum, til að ljúga með sér og þau myndu svo skipta skaða­bótunum sem hann fengi, á milli sín.

Sem fyrr segir hefur Héraðsdómur nú kveðið upp nýjan dóm í málinu með sömu niðurstöðu og fyrr; fjögurra ára fangelsi. Dómurinn hefur ekki verið birtur á vefsíðu Héraðsdóms Reykjavíkur.