Rannsóknarskipið Árni Friðriksson mun halda til loðnuleitar og mælinga í byrjun næstu viku, eftir að samkomulag náðist við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi um að Hafrannsóknarstofnun tæki þátt í kostnaði útgerða við leitina, en auk Árna Friðrikssonar munu tvö uppsjávarveiðiskip taka þátt í leitinni.

Greiða sextíu milljónir til útgerða

Hafrannsóknarstofnun segir frá því á vefsíðu sinni að stofnunin hafi metið það sem svo að þörf væri á tveimur skipum auk Árna Friðrikssonar og því hafi verið leitað til útgerða líkt og undanfarin ár.

Samkomulagið á milli Hafrannsóknarstofnunar og SFS gerir ráð fyrir að Hafrannsóknarstofnun greiði helming af áætluðum kostnaði útgerðanna við leitina. Áætlað er að kostnaður útgerða verði sextíu milljónir og Hafrannsóknarstofnun mun því greiða þrjátíu milljónir til útgerðanna sem taka þátt í leitinni.

Haf­rann­sóknar­stofnun ekki með nægan skipa­kost

Þann sjötta janúar síðastliðinn gagnrýndi SFS að ekkert skip hefði enn haldið til loðnuleitar og að stjórnvöld hefðu ekki samið við útgerðir um að annast hluta verkefnisins. Sögðu þau þá að að óbreyttu væru því ekki líkur á því að loðnuveiðar færu fram í vetur.

„Andaraleysi stjórnvalda verður að teljast heldur nöturlegt; fyrir fyrirtæki sem fjárfest hafa í skipum, búnaði og markaðssetningu fyrir milljarða króna, fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra, fyrir sveitarfélög og fyrir samfélagið allt,“ sagði í yfirlýsingu SFS.

Þar sem Hafrannsóknarstofnun hefði nú einungis eitt rannsóknarskip, Árna Friðriksson, gæti stofnunin ekki stundað þær rannsóknir sem nauðsynlegar væru til þess að hægt væri að gefa út loðnukvóta.

Hafrannsóknarstofnun á tvö skip; Árna Friðriksson og Bjarna Sæmundsson. Í frétt Hafrannsóknarstofnunar segir að rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson sé á leið í slipp vegna vélarbilunar auk þess sem það henti illa til loðnuleitar.

Engin loðna fannst í haust­leið­angri

Áætlað er að gera mælingar í janúar og febrúar og nota þær til grundvallar fiskveiðiráðgjöf fyrir vetrarvertíð, en í haustleiðangri Hafrannsóknarstofnunar fannst engin loðna innan íslenskrar lögsögu og ráðlagði stofnunin því að loðnuveiðar yrðu ekki leyfðar í vetur.