Aðalmeðferð fór fram í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur í bótakröfumálum ekkju og barna Kanadamannsins Grants Wagstaff sem lést í flugslysi í Barkárdal 9. ágúst 2015.

Grant Wagstaff var ráðinn til að ferja flugvél í eigu Arngríms Jóhannssonar frá Íslandi til Bandaríkjanna. Arngrímur flaug vélinni frá Akureyri áleiðis til Keflavíkur. Eftir að hafa árangurslaust leitað uppgöngu úr Öxnadal og síðar Hörgárdal flaug Arngrímur inn í Barkárdal þar sem vélin brotlenti.

Arngrímur lýsti því í dómsal í gær að þeir Grant hafi báðir lifað brotlendinguna af. Einhverra hluta vegna hafi Grant hins vegar verið kominn aftur fyrir sætin sem þeir höfðu setið í. Kviknaði hafi í vélinni.

„Ég sagði við Grant: Fire, fire! Get out!“ lýsti Arngrímur áfram. Hann hafi sjálfur komist út úr brennandi flakinu hægra megin, þar sem félagi hans hafði setið. Grant auðnaðist hins vegar ekki að komast út úr vélinni sem Arngrímur segir að hafi orðið alelda. Allt þetta hafi tekið mikið á hann.

Lögmaður ekkju Grants, María Hrönn Guðmundsdóttir og lögmaður barna þeirra hjóna, Jón Páll Hilmarsson, sögðu engan vafa á því að Arngrímur hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi sem leitt hafi til slyssins og andláts Grants.

Sagði María Hrönn það hafa aukið á miska ekkjunnar að hugsa til þess að maður hennar hafi verið fastur í logandi vélinni.

Lögmaður Arngríms, Friðrik Smárason, og lögmaður Sjóvár, Kristín Edwald, sögðu hins vegar ljóst að þeir Grant og Arngrímur hefðu tekið allar ákvarðanir varðandi flugið í sameiningu. Ekkert saknæmt hefði átt sér stað og ekkert gáleysi verið sýnt. „Þetta var slys, hræðilegt slys,“ sagði Kristín.

Tveir dómkvaddir matsmenn, sem svarað höfðu spurningum lögmannanna í greinargerð, mættu í dómsal og svöruðu þar spurningum. Niðurstaða þeirra var að komið hefðu upp gangtruflanir í vélinni þegar í Barkárdal var komið vegna svokallaðrar blöndungsísingar. Arngrímur sagði það einmitt hafa verið hættuna á slíku sem hafi orðið til þess að hann sneri við í Öxndal og síðar úr Hörgárdal.

Arngrími var bent á að samkvæmt mati Veðurstofu Íslands þennan dag hafi ekki verið fært fyrir sjónflug milli landshluta á Norðurlandi. „Ég bara mótmæli því. Veðrið þarna var gott,“ svaraði Arngrímur.

Arngrímur lýsti því í dómsal að þeir Grant hafi báðir lifað brotlendinguna af.
Fréttablaðið/Ernir

Flugmaður á Akureyri sagði frá leitarflugi sem hann fór í eftir að vélar Arngríms var saknað. Þá hafi verið sjónflugsskilyrði á svæðinu. Hann hafi meðal annars flogið inn í Barkárdal en þá ekki komið auga á flak vélarinnar sem brotlent hafði í yfir tvö þúsund feta hæð.

Sérstakt atriði sem tekist hefur verið á um í málinu er hvort Grant Wagstaff hafi verið svokallaður Pilot Not Flying, eins konar aðstoðarflugmaður, í fluginu örlagaríka eða einfaldlega farþegi.

Matsmennirnir sögðu engan annan flöt á því máli en að Grant hefði verið hefðbundinn farþegi. Það stangast hins vegar á við skilgreiningu Rannsóknarnefndar samgönguslysa á stöðu Kanadamannsins. Þessari síðari skilgreiningu hélt lögmaður Sjóvár á lofti. Þar með væri ekki hægt að gera kröfu í ábyrgðartryggingu vélarinnar vegar Grants því hún fæli aðeins í sér tryggingu fyrir Arngrím einan sem flugmann.

Þá sagðist Kristín Edwald mótmæla því að Grant hafi í raun haft framfærsluskyldu gagnvart Roslyn Wagstaff, eiginkonunni sem hann lét eftir sig. Ekki væri sannað að þau hafi enn búið saman. Lögmaður ekkjunnar benti hins vegar á að Roslyn væri einmitt sú sem hefði fengið líftryggingu Grants ytra og færi fyrir dánarbúi hans.

Lögmaður Arngríms krafðist sýknu fyrir hans hönd en til vara að fjárkröfurnar yrðu lækkaðar. Þær nema samtals hátt í 90 milljónum króna. Benti hann á að Arngrímur hafi sjálfur lent í slysinu, hlotið varanlega líkamlega og andlega áverka og væri nú orðinn 81 árs.

„Hann er greindur með áfallastreituröskun og mun bera þess merki alla tíð,“ sagði Friðrik Smárason.