Arngrímur Jóhannsson og Sjóvá Almennar tryggingar þurfa að greiða aðstandendum Grants Wagstaff tæpar tíu milljónir í bætur vegna flugslyssins í Barkárdal árið 2015. Grant lést í slysinu.

Dómur í málinu var kveðinn upp á þriðja tímanum í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hvorki Arngrímur né fjölskylda Grants voru viðstödd dómsuppkvaðninguna.

Fjölskyldunni dæmdar samtals 9,5 milljónir

Arngrímur og Sjóvá voru dæmd sameiginlega til að greiða Roslyn Mary Wagstaff, ekkju Grants, rúmar 3,4 milljónir í bætur. Bótakröfu hennar vegna missis framfæranda, upp á rúmar 35 milljónir, var vísað frá dómi. Þá voru Arngrímur og Sjóvá dæmd til að greiða tveimur börnum Grants, Söruh Louise Wagstaff og Tyler Grant Wagstaff, hvoru um sig tvær milljónir í bætur. Þá var Sjóvá Almennar dæmt til að greiða dótturinni Claire Noelle Wagstaff tvær milljónir í bætur, en hún stefndi eingöngu tryggingafélaginu en ekki Arngrími.

Grant Wagstaff lést í flugslysi í Barkárdal 9. ágúst 2015. Hann hafði verið ráðinn til að ferja flugvél í eigu Arngríms Jóhannssonar frá Íslandi til Bandaríkjanna. Arngrímur flaug vélinni frá Akureyri áleiðis til Keflavíkur. Eftir að hafa árangurslaust leitað uppgöngu úr Öxnadal og síðar Hörgárdal flaug Arngrímur inn í Barkárdal þar sem vélin brotlenti, þremur korterum eftir flugtak.

Lifðu báðir brotlendinguna af

Í stefnu aðstandenda Grants er meðal annars byggt á því að Arngrímur hafi gert alvarleg mistök við undirbúning flugsins. Það hafi leitt til brotlendingarinnar. Mistökin hafi falist í ofhleðslu vélarinnar og í þyngdar- og jafnvægisútreikningum auk mistaka í ákvörðun flugleiðar í slæmum veðurskilyrðum. Byggja málsástæður í stefnum í málinu einkum á niðurstöðu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Við aðalmeðferð málsins í síðasta mánuði lýsti Arngrímur því að þeir Grant hafi báðir lifað brotlendinguna af. Einhverra hluta vegna hafi Grant hins vegar verið kominn aftur fyrir sætin sem þeir höfðu setið í. Kviknaði hafi í vélinni.

Arngrímur Jóhannsson, var í dómsal við aðalmeðferð málsins ásamt lögmanni sínum, Friðriki Smárasyni. Kristín Edwald gætti hagsmuna Sjóvár Almennra.

„Ég sagði við Grant: Fire, fire! Get out!“ lýsti Arngrímur í skýrslu sinni fyrir dómi. Hann hafi sjálfur komist út úr brennandi flakinu hægra megin, þar sem félagi hans hafði setið. Grant auðnaðist hins vegar ekki að komast út úr vélinni sem Arngrímur segir að hafi orðið alelda. Allt þetta hafi tekið mikið á hann.

Töldu engan vafa á gáleysi Arngríms

Lögmenn stefnendanna héldu því báðir fram fyrir dómi að enginn vafi léki á því að Arngrímur hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi sem leitt hafi til slyssins og andláts Grants.

Sagði María Hrönn það hafa aukið á miska ekkjunnar að hugsa til þess að maður hennar hafi verið fastur í logandi vélinni.

Friðrik Smárason, lögmaður Arngríms og Kristín Edwald sem gætti hagsmuna Sjóvá-Almennra sögðu hins vegar ljóst að þeir Grant og Arngrímur hefðu tekið allar ákvarðanir varðandi flugið í sameiningu. Ekkert saknæmt hefði átt sér stað og ekkert gáleysi verið sýnt. „Þetta var slys, hræðilegt slys,“ sagði Kristín.

Sérfræðingum ber ekki saman um orsakir

Mikið magn gagna lá fyrir í málinu. Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakaði málið en auk þess voru dómkvaddir matsmenn fengnir til að svara spurningum málsaðila vegna dómsmálsins sérstaklega.

Það var megin niðurstaða í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa að slæmar ákvarðanir flugmanna og ofhleðsla flugvélarinnar varð til þess að hún brotlenti í Barkárdal.

Í skýrslunni segir að afskastageta vélarinnar hafi verið talsvert skert vegna ofhleðslu.

Flugvélinni var flogið út Eyjafjörð frá Akureyri, yfir Þelamörk og inn í Öxnadal. Lágskýjað var og ekki unnt að fljúga yfir Öxnadalsheiði. Flugvélinni var því snúið við innarlega í Öxnadal og flogið út í átt að Staðartunguhálsi þar sem stefnan var tekin í átt að botni Hörgárdals.

„Við rannsóknina kom í ljós að flugvélin var ofhlaðin og var afkastageta hennar talsvert skert af þeim sökum. Rannsóknin leiddi í ljós að ekki voru sjónflugsskilyrði á flugleiðinni yfir Tröllaskaga. RNSA telur að mannlegir þættir hafi átt stóran þátt í flugslysinu og þá er einnig talið að blöndungsísing hafi haft áhrif í flugslysinu,“ segir í skýrslunni. Er þetta svo skýrt nánar:

„Inni í Hörgárdal reyndist einnig ófært yfir Hörgárdalsheiði vegna lágra skýja. Var flugvélinni því aftur snúið við. Hugðust flugmennirnir þá fljúga í kringum Tröllaskagann samkvæmt varaplani sínu, en þegar þeir komu aftur að Staðartunguhálsi sýndist þeim þeir sjá gat í skýjunum innst inni í Barkárdal. Var því sú skyndiákvörðun tekin af báðum flugmönnunum að fljúga inn Barkárdal. “

Um þremur korterum eftir flugtak brotlenti vélin innarlega í Barkárdal. Annar mannanna komst ekki út úr vélinni og fórst í kjölfar þess að eldur breiddist út um vélina. „Við rannsóknina kom í ljós að flugvélin var ofhlaðin og var afkastageta hennar talsvert skert af þeim sökum. Rannsóknin leiddi í ljós að ekki voru sjónflugsskilyrði á flugleiðinni yfir Tröllaskaga. RNSA telur að mannlegir þættir hafi átt stóran þátt í flugslysinu og þá er einnig talið að blöndungsísing hafi haft áhrif í flugslysinu.“

Meginniðurstaða matsmannanna sem dómkvaddir voru megna dómsmálanna var hins vegar sú að það hafi eingöngu verið ísing í blöndungi sem hefði orsakað brotlendingu vélarinnar.

Þeir hafna þeirri niðurstöðu rannsóknarnefndar flugslysa að flugvélin hafi verið ofhlaðin og að ekki hafi verið skilyrði til sjónflugs þegar Arngrímur freistaði þess að fljúga upp yfir Tröllaskaga neðan úr Barkárdal eftir að hafa reynt fyrir sér í Öxnadal og Hörgárdal.

Þá töldu matsmennirnir, andstætt rannsóknarnefndinni, að ekki væri hægt að skilgreina Grant Wagstaff sem flugmann um borð, eða Pilot Not Flying. Slíka skilgreiningu lagði Sjóvá einmitt til grundvallar þeirri ákvörðun fyrir þremur árum að greiða ekki bætur til fjölskyldu Grants þar sem tryggingin fyrir flugvélina hefði aðeins gert ráð fyrir einum flugmanni og síðan farþegum ef þeim væri til að dreifa.

Fréttablaðið gerir nánar grein fyrir niðurstöðu héraðsdóms þegar dómurinn hefur verið birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur.

Stefndu greiða ellefu milljónir í málskostnað

Alls námu dómkröfur í málinu hátt í 90 milljónum króna.

Stefndu voru dæmd til að greiða um ellefu milljónir í málskostnað sem rennur í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda, þar með talinn lögmannskostnaður þeirra. greiðist úr ríkissjóði.