Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir og Ragnheiður Bragadóttir eru báðar meðal umsækjenda um eina lausa stöðu dómara við Landsrétt.

Þær eru í hópi þeirra fjögurra sem skipuð voru dómarar við Landsrétt án þess að hafa verið metin meðal fimmtán hæfustu umsækjenda þegar dómstóllinn var settur á laggirnar árið 2017.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp dóm þess efnis að réttlát málsmeðferð sé ekki tryggð í málum sem Arnfríður dæmir þar sem skipun hennar hafi ekki verið í samræmi við lög

Arnfríður og Ragnheiður hafa ekki tekið sæti í dómi síðan MDE kvað dóminn upp fyrir rúmu ári. Enn er beðið endanlegrar niðurstöðu frá Strassborg en málið er til meðferðar hjá yfirdeild dómsins.

Þær sækja nú báðar um hið lausa embætti til að freista þess að fá lögmæta skipun.

Athygli vekur að Ástráður Haraldsson er einnig meðal umsækjenda um hið lausa embætti en dómnefnd taldi hann meðal fimmtán hæfustu umsækjendum þegar fyrst var skipað í réttinn og þar með hæfari en Arnfríði og Ragnheiði sem ráðherra ákvað þó að skipa í embætti.

Aðrir umsækjendur um embættið eru Helgi Sigurðsson og Ragnheiður Snorradóttir. Þau eru bæði héraðsdómarar.