Arndís Anna Gunnarsdóttir, lögmaður gefur kost á sér í prófkjöri Pírata í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar 2021. Hún er kunnug flokknum en bróðir hennar er Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann ætlar ekki að gefa kost á sér í komandi alþingiskosningum.

Arndís er menntaður lögmaður og er sjálfstætt starfandi. Hún vann áður um árabil hjá Rauða krossinum á Íslandi, sem löglærður talsmaður hælisleitenda og flóttafólks. Hún er með meistaragráðu í lögum frá Háskóla Íslands og viðbótarmaster frá KU Leuven í Belgíu, þar sem hún sérhæfði sig í mannréttindum og Evrópusambandinu. Árið 2017 hóf Arndís doktorsnám í mannréttindum við háskólann í Strassborg í Frakklandi.

Í framboðtilkynningu segir hún að sín helstu baráttumál séu réttindi borgaranna.

„Að þau séu öllum ljós og öll fái notið þeirra, óháð stöðu og efnahag. Þar undir falla ýmis málefni, svo sem réttindi fólks til þess að ráða eigin líkama og lífi og að þurfa ekki að þola neinskonar ofbeldi. Sem stjórnmálamaður, líkt og í ævistarfi mínu, lögfræðinni, mun ég berjast fyrir frelsi einstaklingsins, og þá sérstaklega fyrir réttindum fólks sem enn á verulega undir högg að sækja. Réttindi aldraðra, innflytjenda, barna og fatlaðs fólks eru mér sérstaklega hugleikin og ég brenn fyrir því að bæta stöðu kvenna í ofbeldissamböndum. Ég er drifin áfram af einlægum ásetningi til að vinna þessum mikilvægu málum framgang. Því mun ég gefa kost á mér í prófkjöri Pírata og óska eftir stuðningi ykkar í eitt af efstu sætum listans í Reykjavík," segir í tilkynningu frá Arndísi Önnu.

Kæru Píratar, Ég, Arndís Anna, dóttir þeirra Kristínar og Gunnars, mun gefa kost á mér í prófkjöri Pírata í Reykjavík...

Posted by Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir on Sunday, 31 January 2021