„Vonandi er þetta bara upp á við. Maður tekur bara einn dag í einu í þessari bar­áttu,“ segir Eyja­maðurinn Arnar Richards­son sem jafnar sig nú af CO­VID-19-sýkingu.

Rúmar þrjár vikur eru síðan Arnar fann fyrir fyrstu ein­kennum veikindanna en hann var út­skrifaður af Land­spítalanum á laugar­dag eftir að hafa dvalið þar síðan 30. mars síðast­liðinn. Arnar var fluttur til Vest­manna­eyja í gær í svo­kölluðu CO­VID-hylki eins og með­fylgjandi myndir bera með sér.

Arnar var mikið veikur og þurfti hann meðal annars á súr­efnis­gjöf að halda. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Arnar að hann sé al­mennt heilsu­hraustur og stundi reglu­lega hreyfingu. Sú stað­reynd að hann er með astma hafi þó haft á­hrif til hins verra.

Var á bikar­leiknum fræga

Að­spurður kveðst Arnar ekki vita hvar hann nældi sér í þessa svæsnu pest. „Ég get ekki rakið það. En ég var á þessum fræga bikar­leik og það er spurning hvort ég hafi nælt í þetta þar,“ segir Arnar en um­ræddur leikur milli ÍBV og Stjörnunnar fór fram í Laugar­dals­höll þann 7. mars síðast­liðinn.

Arnar vinnur nú að því að ná upp þreki. „Maður tekur bara einn dag í einu í þessari baráttu,“ segir hann.
Mynd/Úr einkasafni

Arnar kveðst hafa sett sjálfan sig í sótt­kví föstu­daginn 13. mars en þá var veiran farin að láta til sín taka hér á landi. „Svo viku seinna er ég orðinn veikur og ekki búinn að fara úr húsi,“ segir Arnar sem greindist með CO­VID-19 þann 22. mars eftir tveggja daga veikindi. Áður hafði Arnar fundið fyrir ein­kennum en í fyrstu taldi hann að um hefð­bundinn hósta væri að ræða sem hann er vanur að fá þegar hann á annað borð fær kvef.

Var orðinn nokkuð hress

Arnar kveðst hafa legið tals­vert veikur í um það bil viku; hann var með háan hita, mikinn hósta, smá mæði og alveg mátt­laus. En sunnu­daginn 29. mars virtist út­litið vera orðið bjartara. Taldi Arnar þá að pestin væri í rénun enda leið honum miklu betur. „Ég var bara orðinn nokkuð góður, gat talað í síma og var allur að koma til. Svo daginn eftir þá versnaði mér mikið,“ segir Arnar.

Hann vaknaði á mánu­deginum með mikið mæði og var auk þess and­stuttur. „Ég fer í mynda­töku upp á sjúkra­húsi þar sem sjást bólgur í báðum lungum. Þá var ég fluttur suður þar sem ég fæ súr­efni,“ segir Arnar en sem betur fer þurfti hann ekki að fara í öndunar­vél. Arnar lá inni á deild A7, CO­VID-deildinni svo­kölluðu á Land­spítalanum í tæpa viku, og segir hann að það hafi verið sér­stök lífs­reynsla.

„Maður liggur hálf með­vitundar­laus og sér ekki framan í einn eða neinn sem kemur og mælir hjá manni lífs­mörkin,“ segir Arnar sem er þakk­látur fyrir þá þjónustu sem hann fékk á öllum stigum sinna veikinda. „Þetta er alveg þrek­virki hjá þessu fólki að vinna í þessum kring­um­stæðum, með grímur, gler­augu og í hálf­gerðum geimbúningum. Mig skortir orð til að lýsa þakk­lætinu mínu.“

Gerir öndunar­æfingar í ein­angrun

Arnar, sem er 46 ára og starfar sem rekstrar­stjóri hjá út­gerðar­fé­laginu Bergi-Hugin, er mikill úti­vistar­maður og kveðst hann ekki í vafa um að al­mennt heilsu­hreysti hafi hjálpað honum.

„Ég er bara í flottu formi. Rétt fyrir veikindin fór ég út að hlaupa á hverjum degi og var að hlaupa kannski 8-14 kíló­metra. Ég er skokkari og held að það hafi bara hjálpað mér,“ segir hann.

Arnar er nú í ein­angrun í íbúð skammt frá heimili sínu í Vest­manna­eyjum þar sem hann vinnur að því að ná upp þreki.

„Ég er bara dug­legur að gera þessar öndunar­æfingar sem lagt er til að maður geri. Það má segja að hver dagur sé betri en gær­dagurinn,“ segir Arnar sem lýsti því á Face­book í gær hvaða æfingar hann stundaði meðan á spítala­vistinni stóð. Um var að ræða tvær æfingar fimm sinnum á dag:

  1. Anda inn um nefið, setja stút á munninn og blása. 10 endur­tekningar.
  2. Anda inn um nefið, halda andanum niðri í 3 sekúndur og tæma hressi­lega.

Arnar segir að þó að þessar æfingar séu ekki erfiðar dags dag­lega hafi þær reynt á og verið mjög erfiðar. Hann er búinn að vera hita­laus síðan á laugar­dag og sem fyrr segir er mark­miðið nú að vinna upp þrek.

„Þegar líður á daginn þá dregur að­eins af manni. En mark­miðið fyrir hvern dag er að gera að­eins meira en í gær.“

Arnari var komið fyrir í svokölluðu COVID-hylki þegar hann var fluttur heim til Vestmannaeyja í gær. Hylkin auðvelda flutning einstaklinga með COVID og draga úr smithættu.
Mynd/Úr einkasafni