Arnar Grant segist ekki hafa hótað eða reynt að fjárkúga mennina þrjá sem hafa lagt fram kæru þess efnis á hendur honum og Vítalíu Lazarevu. Hann birtist í viðtali hjá RÚV í kvöld þar sem hann segist vera mjög hissa yfir kærunni.
Að sögn Arnars áttu þeir Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson frumkvæðið að því að bjóða Vítalíu fé gegn því að hún félli frá því að kæra þá fyrir kynferðisbrot. Mennirnir þrír lögðu fram kæru gegn Arnari og Vítalíu fyrir viku fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs.
Vítalía greindi frá því í janúar að mennirnir þrír hafi brotið gegn sér kynferðislega í heita potti í sumarbústað. Arnar sagði í viðtalinu hjá RÚV að þau hafi öll verið nakin í heitum potti að snertast. Þegar honum varð ofboðið og bauð Vítalíu að fara með sér hafi nokkrir úr hópnum áreitt hana og einn sett hönd milli fóta hennar.
Frá því að Vítalía sagði frá atvikinu í hlaðvarpsþættinum Eigin konur hafa allir mennirnir látið af störfum sínum. Hún sagði einni frá því að Arnar hafi keypt þögn manns með því að bjóða honum kynferðislega greiða frá Vítalíu. Síðar kom í ljós að um var að ræða Loga Bergmann en hann hefur einnig látið af störfum.
Arnar þvertekur fyrir að hafa gert það í viðtalinu og segist aldrei hafa boðið neinum að snerta hana. Hann hafi ekki tjáð sig um það fyrr því hann skammaðist sín og vildi ekki meira skítkast.