Arnar Grant segist ekki hafa hótað eða reynt að fjár­kúga mennina þrjá sem hafa lagt fram kæru þess efnis á hendur honum og Vítalíu Lazarevu. Hann birtist í við­tali hjá RÚV í kvöld þar sem hann segist vera mjög hissa yfir kærunni.

Að sögn Arnars áttu þeir Ari Edwald, Hregg­viður Jóns­son og Þórður Már Jóhannes­son frum­kvæðið að því að bjóða Vítalíu fé gegn því að hún félli frá því að kæra þá fyrir kyn­ferðis­brot. Mennirnir þrír lögðu fram kæru gegn Arnari og Vítalíu fyrir viku fyrir til­­raun til fjár­­kúgunar, hótanir og brot gegn frið­helgi einka­lífs.

Víta­lía greindi frá því í janúar að mennirnir þrír hafi brotið gegn sér kyn­ferðis­lega í heita potti í sumar­bú­stað. Arnar sagði í við­talinu hjá RÚV að þau hafi öll verið nakin í heitum potti að snertast. Þegar honum varð of­boðið og bauð Vítalíu að fara með sér hafi nokkrir úr hópnum á­reitt hana og einn sett hönd milli fóta hennar.

Frá því að Víta­lía sagði frá at­vikinu í hlað­varps­þættinum Eigin konur hafa allir mennirnir látið af störfum sínum. Hún sagði einni frá því að Arnar hafi keypt þögn manns með því að bjóða honum kyn­ferðis­lega greiða frá Vítalíu. Síðar kom í ljós að um var að ræða Loga Berg­mann en hann hefur einnig látið af störfum.

Arnar þver­tekur fyrir að hafa gert það í við­talinu og segist aldrei hafa boðið neinum að snerta hana. Hann hafi ekki tjáð sig um það fyrr því hann skammaðist sín og vildi ekki meira skít­kast.

Við­talið í heild sinni má sjá hér.