Arnar Grant er farinn í tímabundið leyfi frá vinnu sinni í World Class. Það staðfestir eigandi World Class, Björn Leifsson, við fréttastofu Vísis. Í dag var einnig greint frá því í dag að Ari Edwald væri farinn í tímabundið leyfi.

Þá hefur einnig verið greint frá því í dag að Hregg­viður Jóns­son, stjórnar­for­maður og aðal­eig­andi Veritas, hefur á­kveðið að stíga til hliðar úr stjórn fyrir­tækisins og stjórnum tengdra fyrir­tækja.

Mál mannanna tengjast frásögn hinnar 24 ára gömlu Vítaliu Lazarevu í hlaðvarpi Eddu Falak, Eigin konur, fyrr í vikunni þar sem hún lýsir kynferðislegu ofbeldi sem hún segist hafa verið beitt af hálfu kærasta síns, sem var þekktur einkaþjálfari, og þremur vinum hans í sumarbústaði. Í við­talinu við Eddu sagðist Víta­lía ætla að leita réttar sér síns vegna ofbeldisins.

Í viðtalinu lýsti hún einnig meintu andlegu ofbeldi kærastans fyrrverandi og sagði hann hafa talað niðrandi um hana og boðið vinum sínum ítrekað að sofa hjá henni.

At­vikið í um­ræddum sumar­bú­stað mun hafa átt sér stað í desember 2020. Í hlað­varps­þættinum lýsti Víta­lía at­vikinu meðal annars með þessum orðum:

„Þetta fór alveg yfir öll mörk sem hægt var að fara yfir. Fólk áttar sig ekki á því hversu stórt þetta var, margir halda að þetta hafi verið „bara“ þukl en þetta fór yfir öll mörk hjá öllum.“

Fréttin var uppfærð 6. janúar, klukkan 23.49.