Arnar Grant hefur sent frá sér yfirlýsingu til fréttastofu varðandi kæru Ara Edwald, Hregg­viðs Jóns­sonar og Þórðar Más Jóhannes­sonar á hendur honum og Vítalíu Lazarevu vegna til­raun til fjár­kúgunar, hótanir og brot gegn frið­helgi einka­lífsins.

Hann vísar að­dróttunum á bug og segir þetta til­raun til þess að draga úr trú­verðug­leika hans.

„Að gefnu til­efni:

Ég vísa á bug að­dróttunum þar sem reynt er að bendla mig við fjár­kúgun í tengslum við kyn­ferðis­af­brota­mál. Þetta er frá­leit til­raun til að af­vega­leiða um­ræðuna og draga úr trú­verðug­leika mínum sem lykil­vitni í málinu,“ segir Arnar Grant.

Víta­lía steig fram í við­tali hjá Eddu Falak í Eigin konum í janúar á þessu ári þar sem hún greindi frá því að hafa í sumar­bú­stað verið beitt of­beldi af þremur eldri karl­mönnum, þeim Þórði, Ara og Hreggviði, en hún átti í sam­bandi við vin þeirra, Arnar Grant. Logi Berg­mann blandaðist svo í málið með öðrum hætti.

Allir mennirnir sem hafa verið nefndir hafa ýmist farið í leyfi eða stigið til hliðar.

Í mars á þessu ári birti Víta­lía á sam­fé­lags­miðlum mót­töku­kvittun frá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu þess efnis að hún hefði pantað tíma til að leggja fram kæru. Ekki fylgdu upp­lýsingar um hvort hún hefði mætt á lög­reglu­stöð til að fylgja tíma­pöntuninni eftir en í við­tölum við fjöl­miðla sagðist hún hafa kært þá þrjá, Ara, Hregg­við og Þórð.

Þeir hafna í þessu í sinni kæru, vísa til vott­orðs frá Ríkis­lög­reglu­stjóra og segja ekkert mál af þessum toga til rann­sóknar á hendur þeim hjá lög­reglu.