Arna Schram lést á Landspítalanum í gær 53 ára að aldri. Arna var sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg og fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands. Þetta kemur fram á mbl.is.
Arna fæddist 15. mars árið 1968 í Reykjavík, dóttir Ellerts B. Schram, fv. ritstjóra og þingmanns, og Önnu Guðlaugar Ásgeirsdóttur tölvuritara.
Hún ólst upp í Reykjavík, gekk í Vesturbæjarskólann og Hagaskóla og varð stúdent frá MR árið 1988. Arna lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla, auk MBA-gráðu með áherslu á stjórnun, rekstur og markaðsmál frá Háskólanum í Reykjavík.
Arna vann lengi við blaðamennsku, fyrst hjá DV og síðar hjá Morgunblaðinu á árunum 1995 til 2006. Hún var aðstoðarritstjóri Króníkunnar um tíma og eftir það fréttastjóri á Viðskiptablaðinu í þrjú ár.
Arna var hóf störf sem upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar árið 2010 og varð ári síðar forstöðumaður menningarmála hjá bænum. Síðustu fimm árið gegndi hún starfi sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.
Hjá Blaðamannafélagi Íslands gegndi Arna trúnaðarstörfum og tók virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Hún var kjörinn varaformaður félagsins á árunum 2003 til 2005 og formaður á árunum 2005 til 2009. Þá starfaði hún einnig um hríð hjá Háskólanum í Reykjavík og var formaður Listdansskóla Íslands.
Eftirlifandi dóttir Örnu er Birna Ketilsdóttir Schram.