„Það er tiltölulega rólegt þarna núna. Við segjum alltaf tiltölulega, því átökin hafa staðið yfir í fleiri áratugi,“ segir Erik Davtyan, aðstoðarprófessor í alþjóðasamskiptum og erindrekstri við Ríkisháskólann í Jerevan, um átök við landamæri Armeníu sem blossuðu upp í síðasta mánuði.
Átökin, þar sem um 300 manns féllu í valinn, voru þau blóðugustu síðan 2020, þegar ríkin tvö háðu stutt stríð um Nagornó-Karabak sem endaði með sigri Asera.
Erik kom til Íslands á dögunum til að kenna áfanga um utanríkisstefnu smáríkja ásamt Baldri Þórhallssyni við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Þetta er annað skiptið sem hann kemur til landsins.
Spennuþrungið andrúmsloft í höfuðborginni
Erik var staddur í armensku höfuðborginni Jerevan þegar átökin stóðu yfir við landamæri Armeníu og Aserbaísjan um miðjan síðasta mánuð og segir andrúmsloftið hafa verið afar spennuþrungið.
„Ástandið var mjög óhugnanlegt, út af áfallinu sem þjóðin var í eftir stríðið 2020. Við töpuðum því, misstum mikið landsvæði og þúsundir flóttafólks misstu heimili sín,“ segir hann.
„Það leit út fyrir að fólk væri að reyna að snúa aftur til venjulegs lífs. Og svo gerðist þetta og rúmlega hundrað manns létust.“

Engin viðbrögð frá ESB eftir að stríðið í Úkraínu hófst
Erik segir að styrjöldin í Úkraínu hafi gert stöðuna í Armeníu enn viðkvæmari því það eru Rússar sem eru helsti öryggisventill Armena gegn árásum Asera.
Armenar eru aðili að Sameinuðu öryggissáttmálastofnuninni (CSTO), varnarbandalagi Rússa og nokkurra fyrrum sovétlýðvelda, en Aserar eiga í nánu sambandi við Tyrki, sem eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu.
Síðan samið var um vopnahlé árið 2020 hafa Rússar haft landamæraverði til að sinna friðargæslu við landamæri Armeníu og Aserbaísjan. Armenar óttast nú margir að ef Rússar sýni of mikinn veikleika í viðureigninni gegn Úkraínu muni það gera Asera enn bíræfnari.
„Armenía hefur alltaf reynt að vera bandamaður Rússa en vera um leið náin Evrópusambandinu. En nú sér fólk engin viðbrögð frá ESB, sérstaklega ekki síðan stríðið í Úkraínu hófst,“ segir Erik.
Fólkið vonsvikið
„Fólkið er vonsvikið því tilfinningin er sú að ESB vilji hjálpa Armeníu, en þegar syrtir í álinn og Armenar virkilega þarfnast hjálpar, þá lætur hún ekki á sér kræla.“
Óvissan um áframhaldandi flutninga á jarðgasi Rússa til Evrópu hefur aftur á móti gert ESB háðara Aserbaísjan.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, fundaði með Ilham Aliyev, forseta Aserbaísjan, í júlí til að ganga frá samningi um aukinn flutning á jarðgasi og olíu til Evrópu frá Aserbaísjan. Við tilefnið kallaði hún Aliyev „áreiðanlegan samstarfsmann“.
Erik segir að Armenar hafi orðið bæði reiðir og vonsviknir yfir yfirlýsingum embættismanna ESB um átökin. „Þeir gefa út yfirlýsingar um að þeir hafi þungar áhyggjur en benda ekki fingri á árásaraðilann, sem er Aserbaísjan. Fólk er vonsvikið vegna viðbragðanna og yfir gildunum sem ESB segist meta svo mikils.“
„Ekkert hefur breyst“
Núverandi forsætisráðherra Armeníu, Níkol Pasjínjan, komst til valda í svokallaðri flauelsbyltingu árið 2018, meðal annars með það að markmiði að stofna til nánara samstarfs við Evrópusambandið og Vesturlönd. Erik segir vonbrigði Armena með viðbrögð ESB við átökunum enn sárari í því ljósi. „Þeir héldu að ESB myndi taka upp virkari stefnu gagnvart Armeníu, en ekkert hefur breyst.“
Að sögn Eriks snúast átök Armeníu við Aserbaísjan um meira en bara Nagornó-Karabak. Þau snúist um tilvistarrétt armensku þjóðarinnar, sem Aserar hafi ítrekað dregið í efa. „Þeir vilja ekki friðarsamkomulag sem myndi leysa deiluna í eitt skipti fyrir öll. Ef þeir geta það vilja þeir útrýma armensku þjóðinni. Þetta kann að virðast ýkjukennd túlkun, en miðað við ummæli þeirra er þetta það sem þeir vilja.“