Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í Kópavogi hafa komist að samkomulagi um myndun meirihluta fyrir komandi kjörtímabil í sveitafélaginu. Málefnasamningur verður kynntur fyrir fulltrúaráðum flokkanna annað kvöld, að því er fram kemur í tilkynningu um meirihlutasamstarfið sem Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðismanna, sendi fjölmiðlum síðdegis í dag. 

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Ármann Kr. Ólafsson verði áfram bæjarstjóri og Birkir Jón Jónsson verði formaður bæjarráðs.

Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð mynduðu meirihluta síðasta kjörtímabils í Kópavogi. Theodóra Þorsteinsdóttir, sem leiddi lista BF Viðreisnar í nýafstöðnum kosningum, var einnig oddviti Bjartar framtíðar á síðasta kjörtímabili. 

Framsóknarflokkurinn hlaut 8.2 prósent atkvæða í kosningunum í lok maí, en Birkir Jón Jónsson komst einn frambjóðenda Framsóknar inn í bæjarstjórnina. Sjálfstæðisflokkurinn fékk fimm menn kjörna.