Vinir Armando Beqirai, sem var myrtur fyrir utan heimili sitt þann 13. febrúar síðast­liðinn, þeir Dennis Meda, Goran Kristján Stoja­no­vic, Rilind Lama, Enesid Tresi, og Vla­dimir Avramo­vic, gáfu skýrslu fyrir Héraðs­dómi í dag í Rauða­gerðis­málinu svo­kallaða en þar var farið yfir sam­skipti vinanna dagana áður en Armando var myrtur.

Allir höfðu þeir verið í sam­skiptum við Armando daginn sem hann var myrtur eða daginn áður og sögðust þeir allir vita af ein­hverjum deilum milli Armando og Angjelin Sterka­j, sem hefur játað að hafa myrt Armando. Voru þeir þó allir sam­mála um að þeir litu ekki á það sem svo að deilurnar væru mjög al­var­legar.

Þrjú eru á­kærð í málinu, auk Angjelin, fyrir mann­dráp og voru tengsl vina Armando við hin á­kæru mis mikil. „Ég þekki alla þessa hluti, þetta eru ekki mann­eskjur,“ sagði til að mynda Goran Kristján Stoja­no­vic, einn besti vinur Armando en þeir áttu saman öryggis­fyrir­tækisins Top Guard.

Að­spurður um sam­skipti milli Armando og Angjelin og hvers kyns hótanir sagði Goran að svona tali Albanir ein­fald­lega saman. „Þetta voru bara venju­legar sam­ræður milli Ala­bana ... þetta virkar eins og hótanir en þetta eru bara eðli­legar sam­ræður,“ sagði Goran í dag.

Armando hafi ekki viljað tala við Angjelin

Sér­stak­lega var vísað til sím­tals sem Angjelin átti við Enesid en Armando, Goran, Vla­dimir og Rilind voru allir í bílnum þegar um­rætt sím­tal fór fram. Angjelin hafi þar viljað tala við Armando sem vildi það ekki en Enesid sagðist hafa hringt í Angjelin í von um að þeir Armando gætu náð sáttum í sínum deilum.

Að­spurður um hvort Armando hafi hótað Angjelin sagði Enesid að það hafi ekki verið bein hótun, Armando hafi bara sagst ekki vilja tala við „þennan þroska­hefta hálf­vita.“ Síðar greindi hann þó frá því að orðið sem Armando hafi notað mætti þýða sem „ég ætla að ganga frá þér.“ Greindi Enesid frá því að Angjelin hafi þá reiðst og hótað að „fylla maga [Armando] af byssu­kúlum.“

Aðspurður um hvort hótun Angjelin hafi mögulega verið orðuð þannig að ef einhver myndi gera honum mein, þá myndi hann svara fyrir sig. Svaraði Enesid því játandi

Um­rætt sím­tal fór fram á albönsku, sem að­eins Enesid, Armando og Rilind töluðu, og því voru Vla­dimir og Goran ekki vissir um hvað fór fram. Goran sagði að svo virtist að um eðli­legt sam­tal væri að reiða en Vla­dimir sagðist sjá að Armando væri reiður. „Mér fannst það sem strákarnir sögðu mér, að Armando væri bara að sættast,“ sagði Vla­dimir þó.

Boðað til sáttafundar á mánudag

Vla­dimir hringdi síðar í Anton í von um að fá skýringu frá honum í tengslum við málið og eftir það sím­tal segir hann að Armando hafi róast enda hafi Angjelin verið „frægur lygari“ og hafði þá litlar á­hyggjur.

Boðað var til sátta­fundar á mánu­dag en ekki voru allir á sama máli um hver hafði boðað til þessa fundar, Anton eða Angjelin, og þá hver ætti að mæta, ýmist þeir allir eða bara Angjelin og Armando. Goran vildi þó meina að Angjelin kæmi ekki ná­lægt þeim fundi þar sem hann væri ekki vinur Antons, heldur „hundurinn hans.“

Meðal þess sem kom fram var að Angjelin hafi verið að halda því fram að Anton Kristinn Þórarins­son, eða Toni eins og hann er kallaður, hafi ætlað að senda menn með grímur til að ráðast á Armando. Þessu neitaði Anton að sögn Goran og sagði Goran að það væri ekki Anton sem væri á eftir Armando. Þá hafi Angjelin sagt að Armando hafi fengið bíl og hálft kíló af kókaíni fyrir að fara að drepa Anton.

„Við sögðum Armando það sem við vissum, Armando var sama ... það var ekkert al­var­legt,“ sagði Goran en hann sagðist ekki telja á­stæðu til að Armando yrði drepinn. „Ég tók þessu al­var­lega ein­hvern veginn en Arma­do tók þessu ekki al­var­lega.“

Trúði ekki að Angjelin gæti gert eitthvað

Þeir sem hittu Armando á laugar­dag, daginn sem hann var myrtur, voru flestir sam­mála um að Armando hafi virst ró­legur. „Við vorum ekkert að taka þessu al­var­lega, vorum bara eitt­hvað að djóka ... Armando hefur sagt við Vla­dimir að hann trúi ekki að Angjelin gæti gert eitt­hvað,“ sagði Rilind til að mynda.

Við skýrslu­tökurnar var einnig vísað til Mess­en­ger hóp­spjalls milli Armando, Goran, Vla­dimir og Rilind. Í sam­talinu var meðal annars birt mynd af bíl Angjelin þar sem þeir ræddu um að kveikja í honum. Þá var einnig rætt um ein­hvers konar greiðslu og að ein­hver ætti að vera „para­noid“ að­eins lengur en þau hefðu tvo daga til að laga eitt­hvað vanda­mál.

„Á hverjum síma Albana þá eru svona skila­boð .., senda skila­boð um að þau ætli að drepa móður eða föður þinn en hálf­tíma seinna eru þau bestu vinir,“ sagði Goran meðal annars. Þá tók Vla­dimir undir það að það sem kom fram á spjallinu hafi verið grín þeirra á milli og að engin al­vara hafi verið í málinu.

Hvað varðar greiðsluna kom til tals að mögu­lega væri um að ræða meinta sekt á Anton en voru Goran og Vla­dimir á sama máli um að þeir væru ekki að ræða það að kúga fé úr Antoni en vildu ekki útskýra málið frekar. Rilind aftur á móti sagði Armando hafa ákveðið sekt á Anton.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að Goran, Vladimir og Rilind hafi allir verið á sama máli um að þeir hafi ekki rætt mögulega sekt á Anton Kristinn. Hið rétta er að Rilind sagði Armando hafa ákveðið sekt á Anton en Goran og Vladimir gátu ekki gefið aðrar skýringar en að um brandara væri að ræða er varðar skilaboðin á messenger.