Karl Óskar Þráinsson, formaður Foreldrafélags Fossvogsskóla, segir sorglegt að arkitekt sem erfði hönnunarrétt húsnæðis skólans frá föður sínum fái að stjórna för í framkvæmdunum og tefja verkefnið.

„Það er stóra fréttin í þessu, að arkitekt hafi þessi völd yfir börnunum okkar.“

Fulltrúar Reykjavíkurborgar ásamt fulltrúa verkfræðistofunnar Eflu funduðu með foreldrum í dag. Verklok eru að stærstum hluta áætluð 2022 en framkvæmdum lýkur að fullu ári síðar. Karl Óskar segir arkitektinn ekki ráða við verkefnið.

„Þetta er lítil stofa og manneskja með sterkar skoðanir og hún virðist vera sú sem stendur í vegi fyrir því að hægt sé að sinna þessu nauðsynlega viðhaldi á húsinu svo að börnin komist aftur í skólann,“ segir hann.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kom fram á fundinum að ef stærri arkitektastofa færi með verkefnið væru framkvæmdir komnar lengra. Skólaráð og fulltrúar foreldra funda með borgarstjóra á morgun vegna málsins.

fossvogsskoli 01.jpg

Fossvogsskólamálið dregst á langinn.