Kínverski ferðamaðurinn Wei Li náði að skipta um 360 þúsund krónum af 100 krónu mynt í útibúi Arion banka á Smáratorgi í gær. „Ég fór bara í myntvélina,“ segir Li. Aðeins hálfur sigur er þó unninn fyrir Li því að forsvarsmenn bankans vildu ekki greiða honum peningana út.

„Bankinn ætlar að skoða þetta frekar og ég fékk þau skilaboð að niðurstöðu væri að vænta á miðvikudaginn,“ segir Li og undrast þrákelkni íslenskra banka í málinu.

Seðlabankinn gaf út þá yfirlýsingu í gær að bankinn hygðist aðeins taka við mynt frá sínum hefðbundnu viðskiptaaðilum á þeim forsendum að það kostaði fyrirhöfn og fjármuni að ganga úr skugga um efnisinnihald og uppruna skemmdrar myntar.

„Ég átta mig ekki á því hvað hefur breyst enda hef ég komið tvisvar áður í sömu erindagjörðum. Þá kannaði ég reglurnar áður en ég kom hingað,“ segir Li ráðþrota.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær kom Li til landsins með um 170 kíló af íslenskri 100 krónu mynt, andvirði 1,6 milljóna króna. Hann fékk myntina frá kínverskum myntbraskara og hyggst greiða honum þóknun ef íslenskir bankar taka við myntinni. Í fyrri tveimur ferðum Li segist hana hafa náð að skipta um 4-5 milljónum króna af íslenskri mynt.

Hann segist ekki þekkja uppruna myntarinnar til hlítar en einhver hluti komi úr pressuðum íslenskum bílhræjum sem berist að lokum til Kína.