Heimsókn kínverska ferðamannsins Wei Li til Íslands vakti mikla athygli í byrjun mánaðarins. Li ferðaðist til landsins með um 170 kílógrömm, að eigin sögn, af íslenskri 100 krónu mynt frá Kína og freistaði þess að skipta peningunum hérlendis. Heildarverðmætið taldi Li vera um 1,6 milljónir króna.

Fréttablaðið greindi ítarlega frá tilraunum Li til að skipta myntinni þá rúmu viku sem hann dvaldi hérlendis. Að hans sögn var þetta þriðja heimsókn hans til landsins og hafði hann náð að skipta rúmlega fjórum milljónum króna af mynt í fyrri heimsóknum.

Í þessari heimsókn tókst Li að fá kvittanir frá Arion banka fyrir móttöku myntar að andvirði um 400 þúsund krónur. Bankinn neitaði að greiða Li þá upphæð en á móti neitaði Li að taka við myntinni aftur frá bankanum. Þá gaf Li Samhjálp um 400 þúsund krónur í mynt í misjöfnu ástandi auk þess sem hann keypti vörur og þjónustu hérlendis fyrir hluta þeirra myntar sem var í hvað bestu ásigkomulagi. Þá fékk listamaður búsettur hérlendis hluta af peningunum sem viðkomandi hyggst nota við listsköpun sína. Li hélt síðan af landi brott þann 15. febrúar síðastliðinn.

Arion banki hyggst láta rannsaka hluta myntarinnar betur og ganga úr skugga um hvort hluti hennar kunni að vera falsaður. Þetta staðfestir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka. Verður myntin send til Seðlabanka Íslands sem mun áframsenda hana til breska fyrirtækisins Royal Mint sem slær íslenska mynt. Þar verða peningarnir rannsakaðar gaumgæfilega.

Sambærileg mál hafa komið upp í Bandaríkjunum. Seðlabanki Bandaríkjanna hætti að taka við skemmdri mynt yfir tveggja ára tímabil, frá árinu 2015 til ársloka 2017, á meðan rannsakað var hvort stórfelldur innflutningur á dollurum frá Kína væri í raun falsað fé. Tók Seðlabankinn aftur upp þráðinn frá árinu 2018 eftir að hafa breytt reglunum lítillega. Í umfjöllun VICE frá árinu 2018 var fjallað ítarlega um uppruna kínversku myntarinnar sem átti að koma úr samanpressuðum bílum og þvottavélum.

Þá greindi vefmiðillinn NJ.com frá því að saksóknaraembætti New Jersey-fylkis teldi sig hafa komið upp um umfangsmikinn smyglhring á fölsuðum dollurum frá Kína. Í frétt miðilsins kom fram að niðurstöður rannsókna hefðu bent til þess hluti myntarinnar innihéldi aðra málma en eru í bandaríska dalnum. Var umfang hins meinta svindls talið nema um 700 milljónum íslenskra króna.