Refastofninn á Hornströndum er að ná sér á strik eftir erfiða tíma. Árið 2019 mældist stofninn í sögulegu lágmarki frá Hornbjargsvita til Kjaransvíkur. Fá got komust á legg og fá óðul í ábúð. Þetta snerist við í sumar og mörg stór got voru um sumarið og æti nægt.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir að svæðið hafi ekki verið heimsótt síðsumars og því óvíst um afdrif yrðlinganna. Ástæða sé þó til bjartsýni.

Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur

„Í sumar komu talsvert færri ferðamenn á svæðið í upphafi sumars en undanfarin ár,“ segir Ester.

„Skiptir þá mestu að erlendir ferðamenn voru í algerum minnihluta og íslenskir gestir voru ekki á ferðinni fyrr en seint í júní og byrjun júlí.“ Íslenskir ferðamenn eru í flestum tilfellum gönguhópar sem stoppi stutt við grenin.

Ljóst er þó að ferðamennska mun aukast aftur og áformar Umhverfisstofnun að setja nýjar reglur til verndar refum. Meðal annars takmarka fjölda þeirra sem stunda kvikmyndatöku og ljósmyndun og gildi það einnig um dróna. Myndataka hefur aukist undanfarin ár samhliða því að viðkoma refsins hafi versnað.

„Mest er ásókn í að mynda unga yrðlinga við greni en þau eru friðuð samkvæmt villidýralögum,“ segir Ester. Frá 1. maí til 31. júlí er óheimilt að valda óþarfa truflun. Þeir sem koma gagngert til að mynda verði að fá leyfi enda haldi þeir til nálægt grenjum dögum saman.

Hvað dróna varðar segir Ester þá hafa áhrif, bæði á refi og fugla. Fálki flaug á dróna fyrir tveimur árum.

„Hvað refinn varðar þá virðast viðbrögð við drónaflugi geta verið einstaklingsbundin, allt frá mestu rólegheitum yfir í mikinn óróa,“ segir hún.