Ari Edwald, fram­kvæmda­stjóri Ísey út­flutnings, systur­fé­lags Mjólkur­sam­sölunnar, er kominn í leyfi frá störfum. Stundin greinir frá þessu og hefur eftir stjórnar­for­manni fyrir­tækjanna, Elínu Margréti Stefáns­dóttur, að Ari hafi sjálfur óskað eftir því að fara í leyfi.

Í frétt Stundarinnar kemur fram að á­stæðan séu á­sakanir ungrar konu, Vítalíu Lazareva, sem hefur á sam­fé­lags­miðlum lýst því yfir að hann, á­samt hópi manna, hafi farið yfir mörk í sumar­bú­staða­ferð.

Víta­lía kom einnig fram í hlað­varps­þátti Eddu Falak á dögunum, Eigin konur, þar sem hún lýsti reynslu sinni eins og Frétta­blaðið fjallaði um á þriðju­dag. Ari var einn þeirra sem Víta­lía nafn­greindi á sam­fé­lags­miðlum á liðnu ári í tengslum við málið.

Í við­talinu við Eddu sagðist Víta­lía ætla að leita réttar sér síns eftir að hafa orðið fyrir kyn­ferðis­of­beldi af hálfu þriggja eldri karl­manna í sumar­bú­staðar­ferð, en hún var í ástar­sam­bandi með fé­laga þeirra, þekktum manni sem starfar sem einka­þjálfari.

Í frétt Stundarinnar er haft eftir Elínu Margréti að það sé vegna þessarar um­ræðu sem Ari hafi óskað eftir leyfi. Leyfið sé tíma­bundið og ekki sé hægt að segja að hann sé hættur störfum.

„Einar Einars­son, að­stoðar­maður hans, verður þarna til að byrja með en eins og ég segi þá er þetta tíma­bundið. Við bara sjáum til hvernig þetta verður,“ segir Elín í frétt Stundarinnar.