Ari Edwald, framkvæmdastjóri Ísey útflutnings, systurfélags Mjólkursamsölunnar, er kominn í leyfi frá störfum. Stundin greinir frá þessu og hefur eftir stjórnarformanni fyrirtækjanna, Elínu Margréti Stefánsdóttur, að Ari hafi sjálfur óskað eftir því að fara í leyfi.
Í frétt Stundarinnar kemur fram að ástæðan séu ásakanir ungrar konu, Vítalíu Lazareva, sem hefur á samfélagsmiðlum lýst því yfir að hann, ásamt hópi manna, hafi farið yfir mörk í sumarbústaðaferð.
Vítalía kom einnig fram í hlaðvarpsþátti Eddu Falak á dögunum, Eigin konur, þar sem hún lýsti reynslu sinni eins og Fréttablaðið fjallaði um á þriðjudag. Ari var einn þeirra sem Vítalía nafngreindi á samfélagsmiðlum á liðnu ári í tengslum við málið.
Í viðtalinu við Eddu sagðist Vítalía ætla að leita réttar sér síns eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu þriggja eldri karlmanna í sumarbústaðarferð, en hún var í ástarsambandi með félaga þeirra, þekktum manni sem starfar sem einkaþjálfari.
Í frétt Stundarinnar er haft eftir Elínu Margréti að það sé vegna þessarar umræðu sem Ari hafi óskað eftir leyfi. Leyfið sé tímabundið og ekki sé hægt að segja að hann sé hættur störfum.
„Einar Einarsson, aðstoðarmaður hans, verður þarna til að byrja með en eins og ég segi þá er þetta tímabundið. Við bara sjáum til hvernig þetta verður,“ segir Elín í frétt Stundarinnar.