Ari Edwald, einn þeirra þriggja sem kærði Vítalíu Lazarevu og Arnar Grant fyrir tilraun til fjárkúgunarsegir í viðtali við RÚV að það hafi verið erfið ákvörðun að kæra þau Vítalíu og Arnar, en að hann hafi ekki haft neinn annan kost en að kæra þau. Þá sagði hann í samtali við RÚV að hann taldi að allar staðreyndir málsins hefðu ekki komið fram ef hann hefði ekki farið þessa leið.

Vítalía og Arnar eru kærð fyrir að hafa krafið Ara, Hreggvið Jónsson og Þórð Má Jóhannesson um alls 150 milljónir gegn því að Vítalía félli frá því að kæra þá fyrir að brjóta á sér kynferðislega. Kæra mannanna þriggja var lögð fram síðasta föstudag. Vítalía og Arnar eru einnig kærð fyrir að áreiti vini og skyldmenni mannanna þriggja.

Vítalía greindi fyrst frá brotum mannanna í þáttunum Eigin konur í stjórn Eddu Falak. Í kjöl­farið ýmist létu þeir af stjórnar­for­mennsku fé­laga sinna eða misstu störf sín. Hregg­viður lét af stjórnar­for­mennsku í Veritas og Þórður vék úr stjórn Festar. Arnar Grant fór í leyfi frá sínum störfum í World Class og Ara var sagt upp störfum hjá Ísey út­flutningi þar sem hann hafði gegnt stöðu fram­kvæmdar­stjóra.

Vítalía greindi svo frá því í mars að hún ætti bókaðan tíma hjá lögreglu til að kæra en greint var frá því í Fréttablaðinu í morgun að mennirnir þrír hafni því að hún hafi lagt fram kæru og vísa til vott­orðs frá Ríkis­lög­reglu­stjóra og segja ekkert mál af þessum toga til rann­sóknar á hendur þeim hjá lög­reglu.