Ákveðið hefur verið að leggja fram frumvarp til laga um þjóðarsjóð, þar sem ætlunin er að setja arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum ríkisins í sérstakan sjóð, á Alþingi í vetur. Markmiðið er að leggja fyrir til framtíðar og að ráðast í átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila, auk þess sem styrkja á rannsóknir og nýsköpun.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tilkynnti um stofnun sjóðsins á fundi Landsvirkjunar í apríl, og líkt og Fréttablaðið greindi frá var fyrirhugað að þingmál um stofnunina yrði flutt á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í júlí. 

Hins vegar mun ekki hafa náðst samstaða um málið meðal þingflokka, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, og þar af leiðandi gert ráð fyrir að frumvarpið færi í samráðsferli.
„Þetta má kalla kynslóðaverkefni; annars vegar hvernig við hugum að okkar elsta fólki og hins vegar hvernig við búum í haginn fyrir framtíðina,“ sagði Katrín. Lykilatriði sé að íslenskt samfélag fari að byggja upp og styðja betur við nýsköpunar- og rannsóknaumhverfi. 

„Þess vegna höfum við bætt í framlög til menntunar og stefnum á verulegar fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun. Það mun treysta efnahagslíf landsins til framtíðar og draga úr sveiflum en við höfum séð á síðust uvikum að veður geta skipast fljótt í lofti innan einstakra atvinnugreina. Þess vegna er fjölbreytnin svo mikilvæg; að setja ekki öll eggin í sömu körfuna,“ sagði Katrín aukinheldur. 

„Aukin nýsköpun og þar með aukin verðmætasköpun mun styrkja allar atvinnugreinar; sjávarútveg, landbúnað, iðnað, ferðaþjónustu, hugverkageirann, skapandi greinar og svo lengi mætti telja.“