Á upplýsingafundi í dag ítrekaði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir að sóttvarnaryfirvöld mældu ekki með almennri grímunotkun á almannafæri þó meira hafi borið á slíku að undanförnu.

Samkvæmt reglugerð væri einungis skylda að nota andlitsgrímur í áætlunarflugi, þegar veitt er þjónusta sem krefst mikils návígis, í ferð eftir sýnatöku á landamærum eða í ferjum og lengri hópferðum þar sem ekki er hægt að hafa einn metra á milli manna.

Þá væri mælt með því að grímur væru notaðar í öðrum afmörkuðum rýmum þar sem ekki er hægt að tryggja einn metra á milli manna og loftgæði eru slæm.

Þrátt fyrir þetta sagði Þórólfur að stjórnendum stofnanna á borð við framhalds- og háskóla væri að sínu mati leyfilegt að skylda fólk til að nota grímur innan sinna veggja.

Samkvæmt nýjum tilmælum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu ber nemendum og starfsfólki framhalds- og háskóla að nota grímur í skólastarfi.

Beri árangur við vissar aðstæður

„Tilmæli og skoðanir mínar á grímum hafa breyst frá því fyrr í vetur. Það er bara í ljósi þess að við höfum fengið nýjar upplýsingar og það er ekkert óeðlilegt við það að breyta um skoðun þegar maður fær nýjar upplýsingar og kenningar,“ sagði Þórólfur.

„Á þeim grunni erum við að mæla með grímunotkun í vissum aðstæðum. Við erum alls ekki að mæla með almennri notkun á grímum úti á götum. Grímurnar bera árangur í vissum aðstæðum og það er í takti við þau tilmæli sem við erum að koma með.“