Björk Guðmundsdóttir, leikkona, var áreitt um helgina í miðbæ Reykjavíkur. Hún kallar eftir því að konur þurfi ekki að glíma við slíkt einar og að fólk bregðist við þegar það sér eitthvað slíkt gerast.
Atvikið átti sér stað þegar búið var að kveikja ljós á skemmtistað sem lokaði klukkan 23 en þá skyndilega fann hún hendi grípa um munninn á sér og nef að aftan. Þegar hún snýr sér við sér hún mann sem hún hafði séð fyrr um kvöldið þegar hún beið í röð á klósettið og hafði ávarpað hana þar með undarlegum hætti.
„…ég man hvað ég varð hrædd. Þrátt fyrir að kærasti minn og vinir væru viðstaddir. Þrátt fyrir að ljósin væru kveikt. Sami gaur og stóð í röðinni á klósettinu stóð og glotti. Ég spurði hann hvað hann væri að gera. Hann sagði ekki neitt og gekk í burtu eins og ekkert hefði gerst,“ segir Björk í færslu sem hún deildi um atvikið á Facebook-síðu sinni.
Í samtali við Fréttablaðið segir Björk að þótt svo að atvikið virðist kannski mörgum léttvægt þá hafi það verið kornið sem fyllti mælinn hjá henni. Hún hafi oft lent í leiðinlegum atvikum og áreitni í miðbænum, yfirleitt ekki sagt neitt, en núna hafi hún fengið nóg.
„Ég hef upplifað margt á djamminu niðrí bæ síðan ég var 18 ára gömul. Klíp í rass 18 ára. Segi dyraverði. Enginn gerir neitt. Einhver tekur utan um brjóstin á mér 20 ára gömul. Segi dyraverði. Engin gerir neitt. Óviðeigandi snerting á kynfærum á dansgólfi 22 ára gömul. Segi dyraverði. Engin gerir neitt. Þegar vinur minn hins vegar fer til sama dyravarðar og segir hvað hafi gerst þá er gaurnum hent út.
Ég hef upplifað allt þetta en ekkert hefur gert mig jafn reiða og þessi gjörð að setja hendina yfir munnvikin á mér. Það var ekki vegna covid. Það var vegna þess að hann leyfði sér að gera þetta, þessi ókunnugi maður hélt að þetta væri í lagi. Fyrir svona 3 árum hefði ég hlegið að þessu, hugsað æji þetta var misheppnað grín. En þetta er ekki eitthvað grín. Þetta er trigger. Þetta er svo mikil ósvífni að leyfa sér aðgang að líkama annarrar manneskju,“ segir Björk í færslunni.
Ég hef upplifað margt á djamminu niðrí bæ síðan ég var 18 ára gömul. Klíp í rass 18 ára. Segi dyraverði. Enginn gerir neitt. Einhver tekur utan um brjóstin á mér 20 ára gömul. Segi dyraverði. Engin gerir neitt. Óviðeigandi snerting á kynfærum á dansgólfi 22 ára gömul.
Fann kraft til að segja eitthvað
Hún segir að þegar maðurinn reyndi að tala við hana í klósettröðinni hafi sem betur fer önnur kona verið þar og eftir að þau samskipti áttu sér stað hafi hún farið aftur niður og átt góða kvöldstund með vinum sínum og kærasta. Svo hafi atvikið átt sér stað.
„Hann setur höndina yfir andlitið á mér, munninn og nefið, og dregur svo höndina eftir andlitinu á mér. Þetta er frekar ógeðslega gjörð. Það skiptir ekkert máli hvort það er COVID eða ekki, maður bara myndi ekki gera þetta við neinn,“ segir Björk.
Hún segir að á þessum tímapunkti hafi hún fundið einhvern kraft sem hún hafi ekki fundið áður í slíkum aðstæðum, snýr sér við og spyr manninn hvað hann hafi verið að gera.
„Hann bara glottir og gengur í burtu,“ segir Björk.

Glotti og gekk í burtu
Hún segir að eftir það hafi hún talað við dyravörð, sem hafi ekki brugðist við með neinum hætti og hún því farið út af staðnum. Fyrir utan hafi hún séð manninn aftur og þá hafi kærastinn hennar reynt að tala við hann en það hafi svo endað með því að Björk talaði betur við hann, mjög reið yfir atvikinu, og reyndi að útskýra fyrir honum hvaða áhrif þetta hafði á hana.
„Ég kýldi hann í andlitið með orðum. Hann fékk alveg að heyra það frá mér,“ segir Björk.
Hún segir að hún hafi sagt við hann að þetta hafi verið óþægilegt og þegar hún tjáði honum það eftir að þetta gerðist hafi hann ekki beðið hana afsökunar heldur látið sig hverfa. Hann hafi sagt að hann taldi hana vera vinkonu sína en Björk tjáði honum að þótt að svo hefði verið, þá hefði hann heldur ekki átt að gera þetta við vinkonu sína í leyfisleysi.
„Ekki gera þetta við vinkonu þína, systir þína eða mömmu. Ekki gera þetta við konu sem snýr baki í þig. Þú veist ekkert í hverju hún hefur lent og það eina sem hann sagði var „Leiðinlegt að þú hefur upplifað þetta svona“. Sem er ógeðslega góð leið hjá strákum til að axla ekki ábyrgð, biðjast ekki afsökunar og varpa aftur ábyrgðinni á þolandann,“ segir Björk.
Ég held hann hafi bara haldið, eins og svo margir strákar niður í bæ, að hann hafi aðgang að líkömum kvenna. Því það eru engar afleiðingar
Hún segir að þau hafi rætt þetta allt en að hún hafi ekki fengið nein viðbrögð við því frá manninum og dregur í efa að hann hafi talið að hún væri verið vinkona hans.
„Ég held hann hafi bara haldið, eins og svo margir strákar niður í bæ, að hann hafi aðgang að líkömum kvenna. Því það eru engar afleiðingar af þessum „léttvægu málum“ og þegar ég segi „léttvægu málum“ þá eru þetta öll skiptin sem kona verður hrædd en líður óþægilega og er triggeruð. Það eru engar afleiðingar af því að ganga fram hjá konu og snerta létt mjöðmina, eða segja eitthvað óviðeigandi. En þetta er ekkert grátt svæði og þetta er bara ekkert í lagi. „Léttvægu málin“ eru rótin að stóru málunum og þetta er allt í sömu búbblunni. Þetta er hluti af sama vandamálinu. Kynjamisrétti, kynferðisleg áreitni og kynferðislegt ofbeldi kemur öll úr sömu rót og ef það á að gera lítið úr kynferðislegri áreitni, eins og óviðeigandi snertingu á dansgólfi, þá gefum við þessum strákum, sem eru venjulegir strákar, leyfi á að vera á gráa svæðinu og setja ekki mörk hvað varðar stærri málin,“ segir Björk.

#toomanymen og #notallmenn
Hún segir að stærsta vandamálið sé líklega að í flestum tilvikum þá sé ekkert sagt og að þegar eitthvað er sagt þá fái konur oft yfir sig leiðinlegar athugasemdir. Þá hreinlega frjósi konur oft líka eða fari að hlæja að atvikinu og geri lítið úr því til að valda ekki „óþarfa“ usla.
„Maður nennir ekki að lenda í kynferðislegri áreitni og að það sé drullað yfir mann líka,“ segir Björk.
Hún nefnir það sem er að gerast í Bretlandi núna í tengslum við morðið á Söruh Everard. Þar hafi konur staðið upp og bent á að of margir karlmenn beiti kynferðislegu ofbeldi og hafa notað myllumerkið #toomanymen á móti myllumerkinu #notallmenn, eða ekki allir karlmenn, sem oft er varpað í umræðuna um kynferðisofbeldi.
„Það er ekki að hjálpa. Þetta er aðallega vandamál meðal kvenna þótt að karlmenn lendi líka í þessu. Tölfræðin segir okkur að konur eru í meirihluta þolendur og karlmenn gerendur. En við þurfum að vera öll saman í liði. Karlmenn og konur á móti kynferðislegri áreitni. Allar vinkonur mína, og ég leyfi mér að alhæfa því það á við hér, allar hafa þær verið beittar kynferðislegri áreitni og of margar hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Þetta eru ekki einhver „creeps“ í húsasundi. Þetta eru vinir okkar og fjölskyldumeðlimir og það er vandamálið. Mig langar að við, hér á Íslandi, gerum það sama og er að gerast núna í Bretlandi, að við stöndum upp og færum ábyrgðina á réttan stað, á gerendur og á fólkið í kringum okkur. Ef einhver sér kynferðislega áreitni eiga sér stað þá á þolandinn ekki að þurfa að setja ein mörk. Fólkið í kring á að grípa inn í . Vinir og ókunnugir,“ segir Björk.
Maður nennir ekki að lenda í kynferðislegri áreitni og að það sé drullað yfir mann líka
Hún segir að hana langi að segja við stráka að ef kona komi til þeirra og vilji ræða þessa hluti að þeir eigi að reyna að forðast að fara inn í egóið sitt.
„Ég vil ekki að þeir spyrji þá hvort að hún sé að saka þá um að vera kynferðisbrotamaður. Það er ekki vandamálið. Hún er að leita til þín til að opna umræðu og þá er svo mikilvægt að hlusta og vera með henni í liði. Þetta er ekki konur gegn körlum heldur allir gegn kynferðisofbeldi. Með því að bregðast þannig við með því að segja að þetta séu ekki allir menn þá ertu ekki að hlusta og ert bara í þínu egói,“ segir Björk.
Hún segir að fyrir konur, og menn líka, sem séu beitt slíku ofbeldi eða áreitni geti skipt sköpum fyrir afdrif máls að finna fyrir stuðningi úr samfélaginu.
„Það skiptir eiginlega öllu máli því þá færðu styrk sem kona og finnur að samfélagið stendur með þér og þú ert hluti af samfélaginu þegar þú ert niður í bæ og sérð eitthvað svona,“ segir Björk.
Ekki gera þetta við konu sem snýr baki í þig. Þú veist ekkert í hverju hún hefur lent
Ekki snerta neinn án leyfis
Spurð hvort hún vilji bæta einhverju við segir Björk að hún vilji fá að ávarpa manninn sem áreitti hana á bar um helgina.
„Þetta snýst heldur ekki gjörðina að setja hendi yfir munn. Þetta snýst um það að leyfa sér að gera eitthvað við annarra manna líkama án þess að spyrja. Ekki snerta neinn án þess að biðja um leyfi. Sama hvort það er bara að að knúsa litlu frænku þína í fjölskylduboði, spurðu hana um leyfi. Þetta er ekki svona flókið. Þetta er bara „má ég snerta þig?“ og ef svarið er nei, þá er það nei. Það þarf ekki að taka því persónulega,“ segir Björk.
Hún segir að hún hafi haft samband við staðinn sem atvikið átti sér stað á eftir helgi og að þau ætli að fara yfir sín mál og skerpa á sinni stefnu við starfsfólk hvað varðar kynferðislega áreitni og ofbeldi. Þá hafi staðurinn skoðað myndbandsupptökur sínar og hafi borið kennsl á manninn. Hann hafi nú verið bannaður þar og mun ekki geta átt viðskipti þar aftur.
TW kynferðisleg áreitni Í kvöld var ég stödd á bar með kærastanum mínum og vinum hans. Ég fór á klósettið og beið í...
Posted by Björk Guðmundsdóttir on Saturday, 13 March 2021