Bæjarráð Árborgar hafnaði ósk Rauða krossins í Árnessýslu um að kaupa gám til þess að geyma neyðarkerru félagsins. Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs í gær.

Samkvæmt bréfi Rauða krossins er félagið í vandræðum með að geyma neyðarkerru sína. Er hún notuð þegar kemur upp einhvers konar vá í samfélaginu. Félaginu stendur til boða að kaupa gám það en á ekki nægan pening.

„Við rekum okkar deild án allra styrkja, rekum hér litla verslun sem við notum í starfið okkar sem er til að stuðla að því að rjúfa félagslega einangrun,“ segir í beiðni Rauða krossins sem Erla Guðlaug Sigurjónsdóttir deildarstjóri ritaði. Hún sá sér ekki fært að ræða málið við Fréttablaðið.