Fé­lags- og vinnu­markaðs­ráðu­neytið og Ár­borg hafa samið um mót­töku allt að 100 flótta­manna. Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, fé­lags- og vinnu­markaðs­ráð­herra, Fjóla Stein­dóra Kristins­dóttir, bæjar­stjóri Ár­borgar og Nicho­le Leigh Mo­sty, for­stöðu­kona Fjöl­menningar­seturs undir­rituðu samning þess efnis í dag.

Samningurinn var undir­ritaður á Sel­fossi og í honum kveður á um að sveitar­fé­lagið taki í sam­starfi við stjórn­völd á móti allt að 100 flótta­mönnum fram til 31. desember 2023, þó aldrei færri en 50 manns.

Í frétta­til­kynningu frá ráðu­neytinu segir að sam­ræmd mót­taka flótta­fólks nái til fólks sem hefur fengið al­þjóð­lega vernd eða dvalar­leyfi á grund­velli mann­úðar­sjónar­miða hér á landi.

„Mark­miðið er að tryggja flótta­fólki sam­fellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitar­fé­lagi það sest að. Lögð er á­hersla á nauð­syn­lega að­stoð til að vinna úr á­föllum og fólk fái tæki­færi til virkrar þátt­töku í sam­fé­laginu, svo sem með at­vinnu, sam­fé­lags­fræðslu og námi, þar með talið ís­lensku­námi,“ segir í til­kynningunni.

Ár­borg hefur síðast­liðin ár verið mót­töku­sveitar­fé­lag fyrir flótta­fólk og meðal annars tekið á móti flótta­mönnum sem stjórn­völd hafa boðað til landsins. Flótta­fólk sem sest hefur að í Ár­borg hefur komið frá Afgan­istan, Íran, Sýr­landi, Úkraínu og Venesúela.

„Ár­borg hefur tekið myndar­lega á móti fólki á flótta og býr yfir mikil­vægri reynslu af mót­töku flótta­manna. Nýju samningarnir sýna ríkan vilja sveitar­fé­lagsins til að hlúa að flótta­fólki í neyð. Ég óska Ár­borg og í­búum sveitar­fé­lagsins hjartan­lega til hamingju,“ sagði Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, fé­lags- og vinnu­markaðs­ráð­herra.

„Mót­taka flótta­fólks í Sveitar­fé­laginu Ár­borg hefur gengið afar vel en með undir­ritun samnings við ríkið vill sveitar­fé­lagið tryggja far­sæla mót­töku og að­lögun flótta­fólks og barna. Það er á­nægju­efni að samningurinn sé í höfn en hann mun stuðla að sam­felldri og jafnri þjónustu en það er mikil­vægt að flótta­fólk fái jöfn tæki­færi til virkrar þátt­töku í sam­fé­laginu sem fyrst,“ sagði Fjóla Stein­dóra Kristins­dóttir, bæjar­stjóri Ár­borgar.