Ára­tugur er síðan þrír menn vopnaðir skamm­byssu og bar­eflum réðust inn í úra­verslun Michelsen á Laugar­vegi og frömdu stærsta rán Ís­lands­sögunnar. Að þessu til­efni rifjar úr­smiðurinn og for­stjóri Michelsen, Frank Michelsen, upp málið á Face­book-síðu sinni.

Vil­helm Gunnars­son, þá­verandi ljós­myndari Frétta­blaðsins, mætti á staðinn skömmu síðar og tók myndir sem sjá má hér að neðan.

Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

„Þetta er reynsla sem ég hefði viljað verið laus við og óska engum að lenda í, upp­lifunin var skelfi­leg,“ segir Frank enda hafi þre­menningarnir ráðist inn í verslunina, með of­beldi og hótunum, þar sem þeir brutu allt og brömluðu.

Klukkan 10:17 þann 17. októ­ber 2011 komu mennirnir, grímu­klæddir, inn í verslunina skömmu eftir opnun. Þeir brutu skápa með hömrum og fylltu töskur sínar af þýfi, alls 49 úrum. Eftir að hafa verið inni í versluninni einungis tvær til þrjár mínútur hlupu þeir út í dökk­bláan bíl af gerðinni Audi A6, sem stolið hafði verið kvöldið áður í Gnoða­vogi, og keyrðu á brott. Í far­teskinu höfðu þeir úr að verð­mæti 50 til 70 milljónir króna.

Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Innan við hálf­tíma síðar birtust fyrstu fréttir af málinu og af þeim að dæma var enginn vafi á að um stór­mál væri að ræða. Í far­teskinu höfðu þeir úr að verð­mæti 50 til 70 milljónir króna sam­kvæmt frétt RÚV rúm­lega viku síðar.

Flótta­bíllinn fannst í Þing­holtunum stuttu eftir ránið og þar fannst skot­vopnið. Í ljós kom að það var leik­fanga­byssa. Lög­reglan bar kennsl á ræningjana að kvöldi þriðju­dagsins 18. októ­ber.

Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Lög­regla taldi strax lík­legt að ræningjarnir myndu reyna að flýja land sem reyndist rétt metið. Á Kefla­víkur­flug­velli var landa­mæra­eftir­lit hert til muna enda miklar líkur á því að þeir ætluðu sér að fara úr landi með ráns­fenginn. Lög­regla bar kennsl á ræningjana að kvöldi þriðju­dagsins 18. októ­ber.

Þeir höfðu komið til Ís­lands viku fyrir ránið gagn­gert til að fremja það en þeir voru allir pólskir ríkis­borgarar með engin tengsl við landið. Þrátt fyrir hert eftir­lit tókst mönnunum að komast úr landi á þriðju­dags­morgninum en höfðu áður látið sam­verka­manni í té ráns­fenginn sem ekki flúði land. Lög­regla var ekki lengi að hafa uppi á honum og var hann hand­tekinn. Þýfið var því fljót­lega komið aftur í hendur úr­smiðsins.

Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

„Það var miklu púðri eytt í rann­sóknina og það leiddi til þess að við vorum komnir með nöfn á þriðju­dags­kvöld,“ sagði Hörður Jóhannes­son að­stoðar­lög­reglu­stjóri á blaða­manna­fundi vegna ránsins 26. októ­ber. Við höfðum jafn­framt fengið grun­semdir um fjórða manninn sem við síðan hand­tókum í dag. Í tengslum við hand­tökuna fundum við þýfið og lögðum hald á það,“ sagði Jón H. B. Snorra­son að­stoðar­lög­reglu­stjóri við það tæki­færi.

Fréttablaðið/Stefán Karlsson
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Tveir mannanna voru hand­teknir í Sviss og einn í Pól­landi. Voru þeir allir fram­seldir til Ís­lands.

Einn þeirra var Pawel Jerzy Podburaczynski sem dæmdur var til sjö ára fangelsis­vistar af Hæsta­rétti árið 2013 fyrir aðild sína að ráninu eftir að hafa fengið fimm ára dóm í héraði, á­samt sam­verka­manni sínum Grzegorz Marcin Novak. Fyrir héraðs­dómi sögðu Podburaczynski og Novak að þriðji maðurinn, Marcin Tomasz Lech, hefði skipu­lagt ránið og þvingað þá tvo til að fremja það. Lech fékk sömu­leiðis fimm ára dóm fyrir aðild sína að ráninu.

Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

Podburaczynski hlaut annan dóm í maí árið 2016 fyrir að stela iP­hone-símum og öðru að verð­mæti um 300 þúsund króna úr verslun Elko í Skeifunni í febrúar sama ár. Í heima­landi sínu átti hann sér af­brota­sögu og hafði verið dæmdur til sjö ára fangelsis af þar­lendum dóm­stól fyrir rán og hylmingu. Dómurinn hafði í­trekunar­á­hrif á dóm Hæsta­réttar.

Er hann framdi þjófnaðinn í Elko var hann vist­maður á fé­laga­sam­tökunum Vernd, þar sem fangar gátu dvalið eftir að liðið var á af­plánun þeirra gegn því skil­yrði að þeir væru við nám eða vinnu og hefðu sýnt góða hegðun í fangelsi. Þar sem hann framdi glæp er hann var á Vernd var hann færður aftur á Litla-Hraun.

Hér má sjá færslu Frank Michelsen um málið.