Þrjátíu og sex árum eftir byltingu situr annar Ferdi­nand Marcos á forsetastóli á Filippseyjum. Fulltrúi í Evrópusamtökum Filippseyinga er gáttuð á þessari þróun.

„Þetta er forseti sem hefði aldrei átt að vera kjörinn.“ Þetta segir Lilja Védís Hólmsdóttir, fulltrúi Filippseyinga á Íslandi í Evrópusamtökum Filippseyinga, um Ferdinand „Bongbong“ Marcos yngri, sem tók við embætti forseta Filippseyja á fimmtudaginn í síðustu viku eftir að hafa unnið stórsigur í forsetakosningum í maí.

Bongbong er sonur einræðisherrans Ferdinands Marcos, sem réð yfir Filippseyjum í skjóli herlaga þar til honum var steypt af stóli í fjöldabyltingu árið 1986. Í vesturheimi hafa nöfn Marcos og eiginkonu hans, Imeldu, nánast orðið samheiti yfir spillingu og mannréttindabrot og því kann það að koma Íslendingum spánskt fyrir sjónir að nú sé nýr Marcos sestur á forsetastól. Lilja segist einnig hlessa á því, en nefnir ýmsar skýringar.

Afbakar staðreyndir í gegnum samfélagsmiðla

„Hann viðurkenndi að hann hefði notað allar helstu brellurnar á samfélagsmiðlum,“ segir Lilja. „Hann varði fé í að dreifa falsfréttum og afbaka söguna. Sumir halda því jafnvel fram að það hafi aldrei verið herlög í gildi í stjórnartíð föður hans. Þeir segja að Corazon Aquino hafi ekki unnið, að það hafi ekki verið nein bylting.

Auðvitað gerðust þessir hlutir! Ég var meðal mótmælendanna í byltingunni gegn Marcos eldri! Ég varð vitni að öllu! Ég var með bandaríska öldungadeildarþingmanninum Richard Lugar, sem fylgdist með forsetakosningunum 1986. Við vissum að við höfðum unnið en eftir þrjá daga sagði Marcos okkur að við hefðum tapað. Fólkið varð svo reitt að það gerði byltingu.“

Filippseyskir mótmælendur henda málverkum af Ferdinand og Imeldu Marcos út af svölum forsetahallarinnar í Maníla árið 1986.
Mynd/getty

Efast um sigurinn

Lilja dregur í efa að sigur Marcos yngri í kosningunum í maí hafi verið réttmætur og bendir því til stuðnings á skýrslu sem samtökin International Coalition for Human Rights in the Philippines (ICHRP) unnu um þær.

Niðurstaða skýrslunnar var að kosningarnar hefðu hvorki verið frjálsar né sanngjarnar, heldur hefði verið um að ræða keppni sem byggðist á „byssum, bófum og gulli.“ Stjórn fráfarandi forsetans Rodrigos Duterte hefði beitt stjórnarandstæðinga og blaðamenn hótunum í þágu Marcos, auk þess sem kosningavélar hafi víða bilað og kjósendum verið mútað.

Lilja bendir á að þar sem frambjóðendur verði sjálfir að greiða fyrir athugun á kosningamisferli samkvæmt filippseyskum lögum, hafi ekki verið nægilegt fjármagn til að takast á við ágalla kosninganna.

„Mér finnst ekki trúverðugt að 31 milljón manns hafi kosið Marcos,“ segir Lilja. Hún segir þó að á Íslandi séu stuðningsmenn Duterte og Marcos margir og bendir á atvik árið 2019 þar sem stuðningsmaður Duterte mætti á ráðstefnu um mannréttindi á Filippseyjum í Neskirkju og gerði hróp að konu sem hafði misst son sinn í eiturlyfjastríði forsetans. „Séra Agnes varð svo reið.“

Lilja tekur fram að eftir viðtal við hana í Fréttablaðinu það sama ár þar sem hún gagnrýndi Duterte, hafi hún fengið fjölda hatursskilaboða og morðhótana frá stuðningsmönnum forsetans. Hún hefur búið á Íslandi í rúma tvo áratugi en segist nú ekki lengur voga sér að heimsækja Filippseyjar af ótta við stjórnvöld. „Þau hafa gleymt fortíðinni. Ef maður segir eitthvað gegn Duterte eða Marcos verður líf manns í hættu.“