Átján ára piltur í Texas skaut nítján nemendur og tvo kennara til bana í barnaskóla í borginni Uvalde í gær. Árásin er sú mannskæðasta í Bandaríkjunum frá árinu 2012 þegar Adam Lanza skaut 26 manns til bana í Sandy Hook-skólanum í Connecticut.
Árásin átti sér stað í Robb-barnaskólanum í Uvalde en þar stunda nemendur á aldrinum sjö til tíu ára nám. Grunur leikur á að árásarmaðurinn hafi skotið ömmu sína áður en hann fór í skólann og skaut á nemendur og starfsfólk. Hann var síðan sjálfur skotinn til bana.
Í frétt BBC er haft eftir Greg Abbott, ríkisstjóra Texas, að árásarmaðurinn, Salvador Ramos, hafi komið akandi að skólanum áður en hann réðst inn í hann, grár fyrir járnum, klæddur í sérstakan hlífðarbúnað og hóf skothríð. Fréttamiðlar vestanhafs greina frá því að Salvador hafi verið nemandi í skóla í nágrenninu.
Uvalde er skammt frá landamærum Mexíkó og í frétt BBC segir að landamæraverðir hafi verið fyrstir á vettvang árásarinnar. Tveir þeirra voru skotnir af piltinum á meðan þeim þriðja tókst að skjóta hann til bana. Líðan landamæravarðanna sem voru skotnir er sögð stöðug. 66 ára kona og tíu ára stúlka liggja þungt haldin á sjúkrahúsi í San Antonio.
Joe Biden Bandaríkjaforseti tjáði sig um árásina í gærkvöldi og lagði til að flaggað yrði í hálfa stöng í dag vegna árásarinnar. Hann kallaði eftir því að nú yrði að gera breytingar á skotvopnalöggjöfinni í Bandaríkjunum, en árásir sem þessar hafa verið mjög tíðar undanfarin misseri. Sagðist Biden vera orðinn mjög þreyttur á þessari stöðugu umræðu, nú þyrfti að grípa til aðgerða.
