Björn Másson, mannauðsstjóri Krónunnar, segir það miður að ekki hafi verið hringt í lögreglu eftir að kúnni réðst á starfsmann Krónunnar. Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að kúnni hafi ráðist á starfsmanninn og kallaði hann niðrandi orðum um kynþátt hans.

„Fyrstu viðbrögð starfsmanna var að koma samstarfsmanni sínum til hjálpar og að koma árásamanninum út úr versluninni, sem var gert. Það var öllum illa brugðið eins og gefur að skilja en því miður var ekki hringt á lögregluna eins og hefði átt að gera,“ segir Björn í samtali við Fréttablaðið.

„Það er skýrt í verklagsreglum Krónunnar að hafa alltaf samband við lögreglu ef um ógnandi hegðun sem ógnar öryggi starfsmanna eða viðskiptavina er um að ræða. Til að koma í veg fyrir að slík mistök séu endurtekin höfum við farið yfir málið innanhúss og ítrekað okkar verklagsreglur við okkar verslunarstjóra,“ segir Björn.

„Sem betur fer koma svona mál afar sjaldan upp en í svona tilfellum viljum við styðja vel við bakið á okkar starfsmanni og veita alla þá aðstoð sem hann þarf á að halda. Hvort sem það er áfallahjálp eða önnur aðstoð.“

Árdís Pétursdóttir, eiginkona Destiny, mannsins sem ráðist var á, hafði samband við lögreglu þegar hún frétti af atvikinu. Hún greindi frá árásinni í færslu sem hún deildi á Facebook.

„Já gott fólk, þetta gerðist hér á Íslandi, þetta herrans ár 2019. Rasisminn lifir góðu lífi hér á landi,“ skrifar Árdís í færslu sinni.