Norðmenn hafa aukið viðbúnað vegna hugsanlegra hryðjuverka í kjölfar árásanna í Kongsberg í gær, þar sem maður að nafni Espen Andersen Bråthen drap fimm manns með boga og örvum.

Öryggisdeild norsku lögreglunnar (PST) segir árásina hafa verið hryðjuverk. Á blaðamannafundi í dag sagði lögreglumaðurinn Are Christian Haugstøyl, sem leiðir forvarnir gegn hryðjuverkum í Noregi, þó að öryggisstig landsins hafi ekki verið hækkað. „Við vinnum að sjálfsögðu líka að því að komast til botns í því hvort þetta hvetji aðra til að fremja hryðjuverk. Það er forgangsatriði hjá okkur. En eins og er getum við ekki sagt að við höfum orðið neins slíks vör.“

„Öryggisstigið verður áfram talið hóflegt,“ sagði Haugstøyl. „Það er enn hugsanlegt að öfgaíslamistar og öfgahægrimenn reyni að fremja hryðjuverk í Noregi.“