Minnst fimm eru látinn og tvö eru særð, þar af einn lög­reglu­maður, eftir árás boga­manns í Kongs­berg í Noregi síð­degis í dag. Maðurinn var vopnaður boga og ör.

Lög­reglan fékk fyrstu til­kynningu um á­rásina rétt eftir klukkan 18 og náðist á­rásar­maðurinn um hálf­tíma síðar. Lög­reglan hefur lítið viljað tjá sig um á­rásar­manninn en á blaða­manna­fundi full­yrti lög­reglan að gerandinn væri karl­maður og að þeir þekktu til hans.

Fréttablaðið/EPA

Engar upp­lýsingar voru gefnar upp um hvort á­rásar­maðurinn hafi þekkt til fórnar­lamba eða hvað honum gekk til með á­rásunum. Þá hefur á­rásar­maðurinn ekki enn verið yfir­heyrður og mun lög­reglan því ekki gefa frekari upp­lýsingar.

Oey­vind Aas, lög­reglu­stjóri á svæðinu, segir flest benda til þess að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki að því er fram kemur á vef NRK. Það sé þó enn á­stæða til að rann­saka hvort þetta hafi verið hryðju­verka­á­rás, ekki sé hægt að úti­loka slíkt að svo stöddu.

Engar upp­lýsingar hafa verið veittar um fórnar­lömb á­rásarinnar nema að einn óeinkennisklæddur lög­reglu­maður hafi særst. Heimildir Fréttablaðsins herma að tvær ungar stelpur séu meðal fórnarlambanna.

„Mikill þungi yfir brjóstið á manni og mikil sorg"

Kongsberg er um sjötíu kílómetra frá Osló, höfðuborg Noregs, og þar búa um 26 þúsund manns. Ljóst er að atburðurinn vegur þungt á íbúum bæjarins.

„Maður er bara tómur,“ segir Hrafnhildur Snæfeld Björnsdóttur, hárgreiðslukona sem er búsett í bænum.

„Ég keyrði frá Osló áðan og ég man varla eftir að hafa keyrt, ég var bara svona á autopilot. Svo þegar maður kom inn í bæinn kom svona mikill þungi yfir brjóstið á manni og mikil sorg,“ segir Hrafnhildur.

Ör frá árásarmanninum sem hefur lent í vegg.
Fréttablaðið/EPA

Fáar upplýsingar hafa verið gefnar upp varðandi málið og mikil óvissa ríkir. „Svo veit maður ekkert hverjir þetta eru sem lentu í þessu, hvort maður þekkir einhvern. Ég er hárgreiðslukona og ég veit ekkert hvernig dagurinn verður á morgun, eru þetta einhver af kúnnunum mínum eða einhver sem ég þekki,“ segir Hrafnhildur.

Mikill viðbúnaður og fólk beðið að halda sér heima

Íbúar bæjarins voru beðnir um að halda sér innandyra eftir að árásin átti sér stað.

„Það er ekki bíll á götunni. Það hreyfist ekki neitt. Ég er bara að horfa á stilli­mynd. Og svo heyrum við í þyrlunum og herinn er kominn,“ segir Guðrún Elsa Giljan Kristjánsdóttir býr einnig í Kongsberg.

Fréttablaðið/EPA

Elsa segir að þyrlu­um­ferðinni hafa lægt á tíma­bili en svo farið af stað aftur. „Það er eitt­hvað að gerast enn þá en við vitum ekki hvað það er. Þannig að þetta er ó­þægi­legt,“ segir hún.

Tólf ára sonur Elsu var skammt frá staðnum þar sem árásin átti sér stað en flýtti sér heim um leið og hann áttaði sig á því sem væri að gerast.

„Hugur okkur er með ykkur"

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra birti færslu á Twitter-síðu sinni í kvöld þar sem hún sendir fjölskyldum og vinum hinna látnu innilegar samúðarkveðjur fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. "Hugur okkar er með ykkur," skrifar hún.